Björn býður fram krafta sína til forystu í Samfylkingunni

Björn Guðmundsson húsasmiður á Akranesi gefur kost á sér í 1.-4. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi. Hann segist í tilkynningu ungur hafa hneigst til jafnaðarstefnu. „Jafnaðarmennskan hefur verið mitt leiðarljós en hún fellur best að mínum hugsjónum. Af þeim sökum hef ég verið virkur í sveitarstjórnarmálum um allnokkurt skeið. Nú kunna einhverjir að hugsa með sér hvað karl á sjötugsaldri vilji upp á dekk. Við því er einfalt svar: Mér blöskrar einfaldlega hvernig staðan í þjóðfélaginu er í dag. Virðingarleysi virðist vera viðloðandi gagnvart öllu, ekki eingöngu gegn hlutum og eignum, heldur einnig gegn fólki og þörfum þess,“ skrifar Björn í tilkynningu um framboð sitt.

„Ég get ekki lengur setið aðgerðalaus hjá og horft upp á meðan komið er fram við aldraða og öryrkja eins og annars flokks þegna. Það verður að bæta úr þessu strax því meðferð stjórnvalda á fólki er óviðunandi. Komist ég í þá stöðu að geta haft áhrif verður það mitt forgangsmál að leiðrétta kjör aldraðra og öryrkja og afnema þá smán sem þar viðgengst. Sama gildir um fátækt í landinu enda á enginn að líða skort í þessu gjöfula landi. Slíkt er þjóðarskömm sem úr þarf að vinna,“ skrifar Björn Guðmundsson.

Sjá nánar aðsenda grein Björns hér á vefnum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir