Kristján Þór Harðarson.

Kristján Þór ráðinn framkvæmdastjóri Landsbjargar

Kristján Þór Harðarson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Slysavarnafélagsins Landsbjargar frá og með 1. apríl næstkomandi. „Kristján hefur víðtæka reynslu úr fjármálageiranum þar sem hann sat í framkvæmdastjórn Valitors á árunum 2008 til ársins 2019, fyrst sem framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunar og síðar alþjóðasviðs félagsins eða þar til hann tók við sem framkvæmdastjóri Valitor á Íslandi árið 2017. Kristján sat einnig í framkvæmdastjórn Spron á árunum 2001 til ársins 2008. Hann hefur einnig víðtæka reynslu innan íþróttahreyfingarinnar þar sem hann hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum í gegnum árin,“ segir í tilkynningu.

Þór Þorsteinsson, formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar, segir félagið standa frammi fyrir mörgum áskorunum, nú sem endranær, og að sumar þeirra snúi að fjármögnun félagsins og eininga þess til skemmri og lengri tíma. Verkefnum félagsins fjölgar sífellt og ábyrgð þess á almannaheill eykst stöðugt. Hann segist hlakka til að vinna með Kristjáni að þessum málum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir