Þráinn Haraldsson sóknarprestur í Garða- og Saurbæjarprestakalli. Ljósm. arg.

Fjölbreytt dagskrá í Garða- og Saurbæjarprestakalli yfir páskahátíðina

Starf kirkjunnar er komið af stað að nýju eftir tilslakanir á samkomutakmörkunum. Páskahátíðin er framundan og verður hún með hefbundnu sniði í Garða- og Saurbæjarprestakalli. Fermingar hefjast næstkomandi sunnudag á Akranesi þar sem fjölskyldur geta fylgt fermingarbörnum til kirkju. „Fermingarnar verða með venjulegu sniði en án altarisgöngu,“ segir sr. Þráinn Haraldsson sóknarprestur í samtali við Skessuhorn. „Til að geta verið með altarisgöngu þurfum við sér bikara fyrir alla og við eigum þá ekki til fyrir svona stórar athafnir. Þar sem við getum ekki gert þetta með þeirri virðingu sem okkur þykir sæma ákváðum við að sleppa þessum parti frekar,“ segir hann og bætir við að fermingarathafnirnar verði lokaðar nema fyrir fjölskyldur fermingarbarna. „Það þarf að vera einn metri á milli ótengdra aðila og kirkjurnar okkar geta ekki tekið á móti svo mörgum að við getum verið með athafnirnar opnar,“ segir Þráinn. Þá þurfa allir sem koma til messu eða á viðburði í kirkjunni að skrá sig við komu.

Frá Betaníu til Emmaus

Þriðjudaginn í næstu viku, 23. mars, verða haldnir tónleikar í Hallgrímskirkju í Saurbæ. Þá mun Kór Akraneskirkju syngja þætti úr Hallgrímspassíu eftir Sigurð Sævarsson. Um er að ræða verk sem var samið við vers úr Passíusálmum séra Hallgríms Péturssonar. Sungnir verða fimm kaflar úr passíunni og tónskáldið kemur og segir frá verkinu og tilurð þess. „Um páskana munum við leggja áherslu á dagskrá í Hallgrímskirkju í Saurbæ sem ber heitið frá Betaníu til Emmaus. Pálmasunnudagurinn byrjar raunverulega í Betaníu þegar Jesú hitti Mörtu og Maríu, vini sína sem áttu heima í Betaníu, og þaðan fór hann svo til Jerúsalem,“ segir Þráinn.

Notalegar samverustundir

Dagskráin í Hallgrímskirkju hefst laugardaginn 27. mars með kvöldbænum með minningu smurningar Jesú í Betaníu. Á pálmasunnudag verða tónleikarnir Diddú og drengirnir. Sigrún Hjálmtýsdóttir og blásarasveit verða ásamt kór og organista Saurbæjarprestakalls. Þetta er viðburður sem átti í raun að vera á síðasta ári en var frestað vegna Covid. Á mánudeginum og þriðjudeginum verða stuttar og notalegar samverustundir í Hallgrímskirkju. „Við verðum með svona 15-20 mínútna bænastundir með íhugun. Við byrjum á íhugun um iðrun og fyrirgefningu og verðum svo með smá íhugun um vatnið og skírnina,“ segir Þráinn.

Listaverk um krossferilinn

Á miðvikudeginum í dymbilviku verður farið í gegnum fjórtán stöðvar krossferilsins. „Núna strax eftir helgi verður sett upp sýning í kirkjunni á krossferilsmyndum eftir Önnu G. Torfadóttur. Þetta eru myndir sem reka krossferilinn í heild og við munum fara í gegnum þær allar og stoppa við hverja og eina. Þetta eru lítil og skemmtileg verk sem gaman verður að skoða saman,“ segir Þráinn og bætir við að verkin munu hanga upp í kirkjunni eitthvað fram yfir páska. „Það verður hægt að koma og skoða verkin á meðan þau hanga uppi en Hallgrímskirkja er alltaf opin. Þar eru sungnar morguntíðir og kvöldtíðir alla daga en Kristján Valur, sem býr á staðnum, gerir það. Kirkjan er því alltaf opin þar á milli, frá morgni og eitthvað fram eftir degi og það er alltaf svolítil umferð af fólki sem kemur í Saurbæ. Þetta er skemmtilegur staður og ofboðslega falleg kirkja,“ segir Þráinn.

Afhjúpa skilti um Hallgrím og Guðríði

Á skírdag, 1. apríl, verður íhugun um kvöldmáltíðina í Hallgrímskirkju og kvöldmessa kl. 20:00 í Akraneskirkju. Daginn eftir, föstudaginn langa, kl. 12:30 kemur Biskup Íslands og afhjúpar skilti um Hallgrím Pétursson og Guðríði konu hans, sem búið er að setja upp við Hallgrímskirkju í Saurbæ Að því loknu hefst hefðbundin dagskrá á föstudeginum langa þar sem allir Passíusálmarnir verða lesnir upp. „Þetta byrjar svona um klukkan eitt og það tekur um 4-5 tíma að lesa alla Passíusálmana og það verður brotið upp með tónlistaratriði. Þetta er svona viðburður sem fólk er mikið að koma og fara. Það stoppar í smá tíma og hlustar en heldur svo áfram. Þó eru vissulega sumir sem koma og sitja allan tímann,“ segir Þráinn.

Páskanæturmessa

Á laugardagskvöldinu, 3. apríl, verður mikil dagskrá í Hallgrímskirkju. Kl. 15:00 verður börnum boðið að koma að mála páskaegg og kl. 18:00 verða kvöldbænir með lestri 50. Passíusálmsins. Þá verður páskanæturmessa kl. 23:00. „Þetta er nýtt hjá okkur en er samt gamall siður. Áður fyrr var páskunum oft fagnað rétt eftir miðnætti á laugardeginum, þegar nýr sólarhringur byrjaði. Við ætlum að gera þetta í fyrsta skipti núna í Hallgrímskirkju,“ segir Þráinn. Á páskadagsmorgun kl. 8:00 verður hátíðarmessa í Hallgrímskirkju og boðið verður upp á morgunverð að messu lokinni. Þá verður hefðbundin hátíðarmessa í Akraneskirkju kl. 11:00. Annan í páskum verður göngumessa sem hefst við Hallgrímsstein. „Við munum ganga þaðan og staðnæmast á tveimur stöðum og endum svo inni í kirkju þar sem verður messa. Kristján Valur, fyrrum vígslubiskup sem býr á Saurbæ, og Margrét Bóasdóttir hafa komið að skipulagningu þessarar dagskrár í dymbilviku með okkur. Það er mikill fengur fyrir okkur að eiga hann að á staðnum,“ segir Þráinn. „En samhliða allri þessari dagskrá munum við einnig vera með fermingar,“ bætir hann við.

Halda áfram að birta á netinu

Eftir páska verður að sögn Þráins hefðbundin dagskrá í kirkjunni auk fleiri ferminga. „Við erum með fermingar á Akranesi tvo sunnudaga í röð eftir páska og svo eru fermingar í Innra-Hólms kirkju, Hallgrímskirkju og Leirárkrikju. Þá verðum við með sumartónleikaröð í Hallgrímskirkju í sumar en það er tónleikanefnd sem heldur utan um þá,“ segir Þráinn. Aðspurður segir hann einnig standa til að halda áfram að birta stundir úr kirkjunni á netinu. „Það er eitt af því sem ég held að við getum tekið með okkur úr þessum faraldri. Það hefur verið gott áhorf á þessi myndbönd og við höfum fengið mikil viðbrögð. Það hafa margir verið að horfa sem hafa kannski ekki verið að koma reglulega til kirkju svo þetta hefur á merkilegan hátt vakið ákveðna athygli á kirkjunni,“ segir Þráinn.

Líkar þetta

Fleiri fréttir