Eymar Einarsson við bát sinn Ebba AK-37. Ljósm. úr safni.

Þorskur um allan sjó við Akranes

Mjög góð aflabrögð hafa verið síðustu daga hjá bátum sem gera út frá Akranesi. Ebbi AK-37 hefur róið síðustu fimm daga og er aflinn í fimm túrum orðinn yfir 36 tonn, að uppistöðu þorskur. Í samtali við Skessuhorn sagði Eymar Einarsson, eigandi og skipstjóri Ebba, að það væri þorskur um allan sjó. Þorskurinn væri vænn og meðalvigtin væri yfir 10 kíló. Stærsti þorskurinn í þessum túrum var um 38 kíló. Eymar hefur ekki þurft að sækja langt því þorskinn hefur hann mest veitt í um fjögurra til fimm mílna siglingu frá Akranesi.

Að sögn Eymars eru verðin hins vegar alltof lág og dæmi um að leiga á kvótakílói sé jafnvel hærri en verð sem fæst á markaði. Ástæðuna fyrir lágum verðum segir Eymar að megi rekja til Covid því erfiðlega gengur að selja fiskinn, veitingahús erlendis eru víða lokuð og því lítill áhugi á því að kaupa fiskinn okkar. Mikið af þorskinum hefur farið í saltfisk á Portúgal en þar er það sama uppi á teningnum, allt meira og minna lokað.

Eymar hefur undanfarin ár stundað veiðar á sæbjúgum en þar er sama sagan. Verðið lágt og eftirspurnin sömuleiðis lítil. Hann hefur því ekki veitt sæbjúgu síðan snemma síðasta vetur.

Líkar þetta

Fleiri fréttir