Stjörnum prýddur Reykjanesskagi

Heldur hefur dregið úr jarðskjálftavirkni á Reykjanesi eftir því sem liðið hefur á vikuna. Eins og kunnugt er hófst þessi langa hrina miðvikudaginn 24. febrúar með skjálfta upp á 5,7 stig. Næststærsti skjálftinn á þessu tímabili varð síðastliðinn sunnudag klukkan 14:15 og mældist hann 5,4 stig og átti upptök sín rúma tvo kílómetra vestur af Nátthaga. Sá var mjög kröftugur og fannst m.a. um allt vestanvert landið og alla leið til Sauðárkróks og Vestmannaeyja. Nefna má að skjálftinn var það öflugur í uppsveitum Borgarfjarðar að munir féllu þar úr hillum. Vísindamenn telja um svokallaður gikk-skjálfta hafi verið að ræða, en slíkir skjálftar eru afleiðing spennubreytinga þegar kvikuinnskot brýtur sér leið upp undir yfirborð jarðar. Enn eru talsverðar líkur taldar á að hrinan endi með eldgosi á Reykjanesi.

Meðfylgjandi mynd er skjáskot af vef Loftmynda af skjálftum sem orðið hafa undanfarnar þrjár vikur. Fjöldi skjálfta er talinn yfir 50 þúsund og því er einungis hluti þeirra sjáanlegur á myndinni, en tákn fyrir þá falla hvert yfir annað. Skjálftar yfir þrjú stig eru markaðir með stjörnum á kortinu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir