Grásleppulöndun í Stykkishólmi. Lósmynd úr safni/sá.

Grásleppuveiðar heimilar frá 23. mars

Heimilt verður að hirða grásleppuhrognin og henda hveljunni

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur undirritað og gefið út reglugerð um hrognkelsaveiðar árið 2021. Reglugerðin er að mestu óbreytt frá fyrri reglugerð að undaskildum ákvæðum um svæðalokanir. Leyfi er gefið út veiða í 25 samfellda daga. Leyfi eru bundin við ákveðið veiðisvæði og veiðitímabil. Veiðisvæði verða sjö, A-G. Veiðitímabilið verður frá 23. mars til 30. júní nema í innanverðum Breiðafirði þar sem veiða má frá 20. maí til 12. ágúst.

Grásleppuveiðum lauk sem kunnugt er mun fyrr en ætlað var á síðasta ári þar sem bátar á norðan- og austanverðu landinu veiddu lungann af grásleppukvótanum á mun styttri tíma en ráð hafði verið fyrir gert. Það varð til þess að bátar annarsstaðar á landinu þurftu að hætta veiðum eftir örfáa veiðidaga nema hvað bátum á Breiðafirði var úthlutað auka dögum til veiða sem sárabót.

Nýja reglugerðin bregst að hluta við þessu með því að skylda Fiskistofu sem fylgist með lönduðum grásleppuafla til þess að fella úr gildi leyfi á öllum svæðum A og C til G, ef fyrirséð er að veiðar gætu orðið skaðlegar með tilliti til sjálfbærrar nýtingar grásleppustofnsins. Fiskistofa skal miða við að afli á framangreindum svæðum fari ekki yfir 78% af ráðlögðum hámarksafla tímabilsins.

Þá skal Fiskistofa fella úr gildi öll leyfi á svæði B, ef fyrirséð er að veiðar gætu orðið skaðlegar með tilliti til sjálfbærrar nýtingar grásleppustofnsins. Fiskistofa skal miða við að afli á B svæði fari ekki yfir 22% af ráðlögðum hámarksafla tímabilsins fyrir 30. júní.

Gert er ráð fyrir að sjómönnum verði heimilt að skera grásleppuna úti á sjó enda eftirspurn eftir hveljum afar lítil um þessar mundir. Þetta þýðir í raun að sjómönnum er heimilt að fleygja grásleppuhveljunni í sjóinn eftir að hafa hirt hrognin ef ekki finnst kaupandi að henni.

Líkar þetta

Fleiri fréttir