Á þessu korti VSÓ ráðgjafar má sjá sýnileika vindmyllugarðs á Grjóthálsi fyrir héraðið. Bleiki liturinn sýnir hvernig myllurnar verða vel sýnilegar í nágrenninu. Liturinn verður ljósbleikari eftir því sem fjær dregur, en vindmyllurnar munu engu að síður sjást frá Borgarnesi, Mýrum og úr Andakíl.

Skipulags- og matslýsing vegna vindmyllugarðs á Grjóthálsi

Á fundi sínum 11. febrúar síðastliðinn samþykkti sveitarstjórn Borgarbyggðar skipulags- og matslýsingu fyrir aðalskipulagsbreytingu í landi jarðanna Hafþórsstaða í Norðurárdal og Sigmundarstaða í Þverárhlíð. Í breytingunni er gert ráð fyrir að skilgreina iðnaðarsvæði í stað landbúnaðarnota á Grjóthálsi, milli fyrrgreindra jarða, þar sem landeigendur hafa uppi áform um að reisa allt að sex vindmyllur sem hver um sig gætu orðið allt að 150 háar með spaða í hæstu stöðu. Skipulags- og matslýsing vegna framkvæmdarinnar er nú aðgengileg á vef Borgarbyggðar. „Hverjum þeim aðila sem telur sig eiga hagsmuna að gæta er gefinn kostur á að gera athugasemd við auglýsta skipulags- og matslýsingu og er frestur til að skila inn athugasemdum til og með 25. mars 2021,“ segir í auglýsingu frá Borgarbyggð sem birtist í Skessuhorni 10. mars síðastliðinn.

Í skipulags- og matslýsingu fyrir verkefnið kemur m.a. fram að þetta sé fyrsta skrefið í undirbúningi skipulagsvinnu og er ætlað að upplýsa almenning, hagaðila og umsagnaraðila um fyrirkomulag vinnunnar, helstu viðfangsefni og áherslur hennar og hvernig staðið verði að kynningum og samráði. „Fyrirhugað er að nýta vindorku á Grjóthálsi í landi Hafþórsstaða og Sigmundarstaða. Forsendur fyrir staðsetningu vindmylla á Grjóthálsi byggja m.a. á niðurstöðum veðurmælinga, sem benda til þess að Grjótháls sé ákjósanlegur staður til nýtingar vindorku og mjög stutt er í meginflutningskerfi raforku, þar sem Hrútatungulína 1 liggur um Grjótháls. Þá nýtist umrætt landsvæði ekki til landbúnaðar og þar eru ekki náttúruverndarsvæði. Loks er hluti af forsendum gott aðgengi um núverandi Grjóthálsveg,“ segir í matslýsingu sem VSÓ ráðgjöf gerði.

Áformin um virkjun vindorku á Grjóthálsi eru umfangsmeiri en gildandi aðalskipulag fyrir Borgarbyggð gerir ráð fyrir og því er breyting á því forsenda þess ef koma á til framkvæmdarinnar. Þá þarf auk þess að breyta landnotkun úr landbúnaðarsvæði í orkuvinnslusvæði. Samkvæmt skipulagsreglugerð skulu svæði fyrir virkjanir, þ.m.t. vindmyllur, og tengivirki skilgreind sem iðnaðarsvæði í aðalskipulagi. Þeir umhverfisþættir sem lagt verður mat á í ferlinu eru samfélagið, nánar tiltekið hljóðvist og útivistarmöguleikar á svæðinu, náttúra og landslag, atvinna, innviðir og nærþjónusta auk áhrifa framkvæmdarinnar á menntun og menningararf, nánar tiltekið menningarminjar.

Vindmylla og Hallgrímskirkja í Reykjavík til samanburðar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir