Rakaskemmdir og mygla fundust við úttekt – viðamiklar umbætur framundan

Í gær, miðvikudag, var haldin kynningarfundur í streymi um skýrslu Verkís um nýja úttekt á húsnæði Grundaskóla á Akranesi. Skýrslan var unnin vegna grunsemda um ónóg loftgæði í skólanum. Helstu niðurstöður úttektarinnar eru að rakaskemmdir hafa fundist víða í húsnæði skólans og sumsstaðar hafa þær leitt til myglu.

Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri hélt framsögu og stýrði fundinum. Þá tók Sigurður Arnar Sigurðsson skólastjóri Grundaskóla við og fór yfir ástæður þess að óskað var eftir úttektinni og rakti í ítarlegu máli viðbrögð skólans. Sigurður fór yfir tímalínu málsins en grundsemdir vöknuðu fyrst á haustdögum vegna ítrekaðra athugasemda frá starfsmönnum og nemendum. Í nóvember og desember var úttektin undirbúin og hún fór svo fram dagana 10. til 16. febrúar. Það er svo í byrjun mars að aðgerðaáætlun skólans er virkjuð og tekin ákvörðun um að loka stórum hlutum skólans og stokka upp skólastarfið með tilliti til þess.

Svokölluð gryfja í Grundaskóla en þar fannst mygla.

Sigurður fór yfir hvaða áhrif uppstokkunin hefði á hin mismundandi stig skólans en flytja þurfti stóran hluta nemenda í húsnæði utan skólans, svo sem í Þorpið og Arnardal, frístundamiðstöðina við Garðavöll, tónlistarskólann og fjölbrautaskólann. Alls hefur skólinn þurft að loka 22 skólastofum eða um tveimur þriðju af því rými sem hann hefur yfir að ráða. Hefur starfsemi skólans farið fram á sjö starfsstöðvum undanfarið. Þá fjallaði Sigurður um hvernig skólinn hefði brugðist við hvað varðar búnað og fleira, hvernig hægt væri að hreinsa og varðveita sumt en að sumu þyrfti hreinlega að farga. Jafnframt færði Sigurður þakkir til fyrirtækja og stofnana vegna veittrar aðstoðar og hrósaði starfsfólki, nemendum og foreldrum fyrir þeirra viðbrögð og aðkomu auk þess sem hann hrósaði bæjaryfirvöldum fyrir mikinn vilja til að finna góðar lausnir fljótt og vel.

 

Mygla stórskaðleg heilsu

Dæmi um niðurstöður sýnatöku sem leiða í ljós myglu.

Indriði Níelsson, byggingarverkfræðingur hjá Verkís fór yfir framkvæmd úttektarinnar og niðurstöður. Hann rakti tímalínu úttektarinnar og hvernig hún var framkvæmd. Þá útskýrði hann hvernig rakaskemmdir verða til og hvernig þær geta leitt til myglu en mygla getur verið stórskaðleg heilsu fólks og jafnvel verið krabbameinsvaldandi. Indriði fór ítarlega yfir hvar og hvernig sýnatökur fóru fram og hvað kom út úr sýnum á hverjum stað. Miðað við þann fjölda af sýnum sem tekin voru þá kom fram í máli Indriða að hlutfall hækkaðra gilda í teknum sýnum var ekki hátt, eða um 17%. Hann fór jafnframt yfir niðurstöður rannsóknar Náttúrufræðistofnunar Íslands á myglusveppum í sýnum sem tekin voru í úttekt Verkís.

 

 

Niðurstöður: Rakaskemmdir og mygla

Helstu niðurstöður úttektarinnar eru að rakaskemmdir fundust víða í húsnæði skólans og sumsstaðar höfðu þær leitt til myglu. Þá er gömul glerull ásamt ágöllum á rakavarnarlagi stór orsakavaldur að lélegri loftgæðum en rykagnir berast frá glerullinni þar sem húsnæðið er óþétt.

Framundan er viðamikið verk við endurbætur á húsnæði Grundaskóla og er það þegar hafið undir stjórn Akraneskaupstaðar og ráðgjafa Verkís. Fjarlægja þarf byggingarefni víða og endurnýja. Sérstaklega er það í C-álmu skólans (elsti hluti byggingarinnar), þar sem kennslurými yngstu nemenda skólans er, en einnig eru tvö rými í B-álmu, kennslurými unglingadeildar, lokuð vegna rakaskemmda og viðamiklar viðgerðir þegar hafnar.

Bæjaryfirvöld munu á næstu dögum og vikum fjalla um og taka ákvarðanir um þær framkvæmdir sem ljóst er að ráðast þarf í á húsnæðinu til að skapa fullnægjandi aðstæður til kennslu.

Hægt er að finna allar niðurstöður úttektarinnar, niðurstöður Náttúrufræðistofnunar, upptökur af fundinum og aðra umfjöllun á vef Akraneskaupstaðar.

Meðfylgjandi er slóð á lokaskýrsluna sem og á aðrar upplýsingar sem málið varða:

Endanleg úttektarskýrsla Verkís (lengri útgáfa)

Endanleg úttektarskýrsla Verkís (styttri útgáfa)

Rannsóknarniðurstöður Náttúrufræðistofnunar Íslands

Viðbrögð Grundaskóla

Kynning Verkís á niðurstöðum rannsóknar

Myndband um aðgerðir starfsfólks og nemenda Grundaskóla (vettvangsmyndir)

Upptaka frá kynningarfundi þann 17. mars 2021

Líkar þetta

Fleiri fréttir