Nýsköpunarnet Vesturlands verður til

Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi settu af stað verkefnið „Nýsköpunarnet Vesturlands“ á dögunum en það hlaut styrk í desember 2020 úr stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018-2024 sem ætlað er að styðja sértæk verkefni sóknaráætlanasvæða. Verkefnið Nýsköpunarnet Vesturlands felst í því að tengja saman þá sem vinna að nýsköpun á Vesturlandi og efla þau nýsköpunarsetur og samvinnurými sem eru að stíga sín fyrstu spor í flestum sveitarfélögum í landshlutanum. Á svæðinu eru auk þess tveir háskólar, þrír framhaldsskólar, símenntunarmiðstöð, þekkingarsetur og öflugt atvinnulíf. Markmiðið með Nýsköpunarnetinu er m.a. að tengja saman setrin og hið öfluga þekkingarsamfélag sem er á Vesturlandi.

Nýsköpunarsetrin og samvinnurýmin verða í lykilhlutverki í nýsköpunarnetinu. Stefnt er að því að þar verði hægt að nálgast faglegan stuðning og sækja erindi og fræðslu um frumkvöðla og nýsköpun. Nýsköpunarnetið stuðli þannig að aukinni umræðu og skoðanaskiptum og efli tækifæri til atvinnusköpunar á Vesturlandi.

Í nýskipaðri verkefnastjórn Nýsköpunarnetsins sitja Gísli Gíslason  sem er formaður stjórnarinnar, Helena Guttormsdóttir, Stefán Valgarð Kalmansson, Jakob Kristjánsson og Rut Ragnarsdóttir. Starfsmaður verkefnisstjórnar er Helga Guðjónsdóttir atvinnuráðgjafi. Jafnframt sitja fundi stjórnarinnar Ólafur Sveinsson atvinnuráðgjafi og Páll Brynjarsson framkvæmdastjóri. „Verkefnastjórnin hittist á fyrsta fundi nýverið þar sem farið var yfir stöðuna á Vesturlandi og línur lagðar um næstu skref. Skemmtilegar umræður sköpuðust um málið og verkefnastjórnin hlakkar til áframhaldandi vinnu við Nýsköpunarnet Vesturlands,“ segir í frétt SSV af fundinum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir