Björgunarstigabíll af svipuðu tagi og Slökkvilið Akureyrar hefur fest kaup á. Ljósmynd af heimasíðu framleiðandans, Echelles Riffaud SA.

Lagt til að keyptur verði björgunarstigabíll á Akranes

Á fundi skipulags- og umhverfisráðs Akraneskaupstaðar síðastliðinn mánudag var lagt fram minnisblað slökkviliðsstjóra Slökkviliðs Akraness og Hvalfjarðarsveitar, Jens Heiðars Ragnarssonar, um kaup á körfubíl til slökkviliðsins en liðið hefur verið án körfubíls frá því vorið 2019 eða í um tvö ár. Á svæði slökkviliðsins eru fjölmörg háreist fjölbýlishús og háreist atvinnuhúsnæði að auki. Því er ljóst að alvarleg staða getur komið upp ef eldur kemur upp í slíkum húsum. Þarf slökkviliðið því að treysta á aðstoð frá slökkviliðum nágrannasveitarfélaga komi slík staða upp en viðbragðstími í slíkum tilfellum væri í besta falli um 30 mínútur.

Að sögn Jens Heiðars hefur engin ákvörðun verið tekin enda ræðst það af fjármagni frá sveitarfélögunum. Þó er verið að skoða tvo kosti; að kaupa nýlegan notaðan körfubíl eða að láta smíða nýjan. Kosturinn við að kaupa nýlegan notaðan bíl er helst mun skemmri afhendingartími.

Bílar af þessu tagi liggja ekki á lausu enda líta slökkvilið almennt á kaup á slíkum bílum sem fjárfestingu til 20 til 25 ára. Þó kemur fyrir að framleiðendur taka slíka bíla innan við tíu ára gamla upp í nýja og einnig eru sýningarbílar stöku sinnum falir. Verð á slíkum bílum er að sögn Jens Heiðars á bilinu 75 til 90 milljónir króna fyrir nýlegan notaðan bíl en 100 til 110 milljónir fyrir nýjan bíl.

Þá segir Jens Heiðar í samtali við Skessuhorn að körfubíll sé ekki lengur réttnefni því á slíkum bílum í dag er bóma bílsins í raun stigi og fremsti hluti hennar armur með körfu og slíkir bílar eru almennt kallaðir björgunarstigabílar. Slökkvilið Akureyrar gerði á síðasta ári samning við franskan stigabílaframleiðanda um kaup á slíkum bíl af gerðinni Scania með 33 metra björgunarstiga með fingur og mannkörfu fyrir fjóra einstaklinga. Auk þess er sá bíll útbúinn með fjarstýrðum slökkvistúti, hitamyndavél, festingu fyrir sjúkrabörur, rafstöð og fleiru.

Á áðurnefndum fundi samþykkti skipulags- og umhverfisráð að leggja til við bæjarráð að gerður verði viðauki við fjárhagsáætlun 2021 um kaup á körfubíl. Var Jens Heiðar afar ánægður með að málið væri komið í formlegan farveg.

Líkar þetta

Fleiri fréttir