Sigursteinn Sigurðsson er starfandi menningarfulltrúi Vesturlands. Ljósm. úr safni/glh.

Endurskoða menningarstefnu fyrir Vesturland

Hafin er vinna við endurskoðun menningarstefnu fyrir Vesturland. Slík sameiginleg stefna sveitarfélaga í landshlutanum var fyrst samþykkt árið 2016 og gilti til 2019. Því var endurskoðun hennar fyrir nokkru orðin tímanbær. Sigursteinn Sigurðsson menningarfulltrúi hjá SSV segir að sá hátturinn sé nú hafður á að sveitarfélögin á Vesturlandi tilnefndu einn fulltrúa hvert til að sitja í sérstöku fagráði sem fer yfir ferla og áherslur í nýrri menningarstefnu. Auk þeirra sitja fjórir fagaðilar í nefndinni sem allir eru starfandi í menningartengdum atvinnugreinum sem aðalstarfi á Vesturlandi. „Útkoman er fagráð sem er skipað fagfólki, starfsmönnum menningarráða og nefndarmönnum í menningarnefndum allsstaðar að úr landshutanum. Starfsmenn fagráðsins eru svo menningarfulltrúi hjá SSV og Sólveig Ólafsdóttir sem er ráðin tímabundin til verkefnisins til aðstoðar,“ segir Sigursteinn.

Fagráð um endurskoðun stefnunnar hittist í fyrsta skipti 10. mars og fór yfir stöðu menningarmála á Vesturlandi í samtímanum og þær stefnur sem eru í gildi hjá ríki og sveitarfélögum. „Skemmtilegar og lifandi umræður komu í kjölfarið og ákveðnar línur markaðar um næstu skref. Til að mynda var fagráð einróma sammála um að leggja áherslu á að stefnan skyldi vera mótuð út frá Vesturlandi sem heild og áherlsa lögð m.a. á atvinnumál menningar, fjölmenningu og menningaruppeldi til yngri kynslóðarinnar.“ Sigursteinn segir að framundan séu opnir fundir þar sem íbúum gefst tækifæri á að leggja orð í belg.

Líkar þetta

Fleiri fréttir