Bændur tóku við verðlaunum fyrir afurðahæstu kýrnar og búin og hæst dæmdu kýrnar. F.v. Helgi Már Ólafsson Þverholtum, Sigurbjörg Ottesen Hjarðarfelli, Karl Vernharð Þorleifsson Hvanneyri, Magnús Þór Eggertsson Ásgarði, Magnús Kristjánsson Snorrastöðum og Laufey Bjarnadóttir Stakkhamri. Ljósm. Egill Gunnarsson.

Snorrastaðir afurðahæsta búið og Sól í Ásgarði nythæsta kýrin

Aðalfundur Kúabændafélagsins Baulu, sem hefur starfssvæði á sunnanverðu Snæfellsnesi, Mýrum og Borgarfirði norðan Skarðsheiðar, var haldinn mánudaginn 15. mars í félagsheimilinu Lyngbrekku. Á dagsskrá voru hefðbundin aðalfundarstörf, en að auki fékk félagið nokkra gesti á fundinn. Félögum voru veittar viðurkenningar fyrir afurðahæstu kýr, afurðahæstu bú og hæst dæmdu kýr fyrir árið 2020.

 

Afurðahæstu kúabúin árið 2020 voru:

  1. Snorrastaðir með 7.808 kg/árskú
  2. Hjarðarfell með 7.631 kg/árskú
  3. Hvanneyri með 7.595 kg/árskú

 

Afurðahæstu kýr 2020 voru:

  1. Sól frá Ásgarði 12.505 kg mjólk
  2. Adda 3 frá Þverholtum 12.291 kg mjólk
  3. Ljóma 561 frá Stakkhamri 11.673 kg mjólk.

 

Hæst dæmdu kýr 2020 voru:

  1. Þjóðhátíð frá Hjarðarfelli með 300,4 stig
  2. Bjartsýn frá Snorrastöðum með 295,4 stig
  3. Una frá Hjarðarfelli með 292,6 stig.

 

Margrét Gísladóttir framkvæmdastjóti LK fór yfir starf samtakanna á sl. ári og hvað væri fram undan. Markaður fyrir nautakjöt er mjög erfiður og í uppnámi vegna mikils innflutnings á nautakjöti. Töluverð vinna hefur farið í að reyna að leiðrétta meinta ranga skráningu á tollnúmerum hvað varðar innflutning á mjólkurvörum og er ekki enn séð fyrir það mál. Nefndarvinna við endurskoðun búvörusamninga er enn ekki lokið.

Herdís Magna Gunnarsdóttir, formaður LK, fór yfir tillögur að breytingum á félagskerfi bænda sem munu liggja fyrir Búnaðarþingi sem verður haldið í byrjun næstu viku, dagana 22. – 23. mars. Um er að ræða veigamiklar breytingar þar sem gert er ráð fyrir að bændur verði beinir félagar að Bændasamtökum Íslands en skrái sig í búgreinadeildir sem fer eftir veltu hvers bónda fyrir sig, í hvaða búgrein það er. Þar með munu búgreinafélögin renna þarna inn og í stað þeirra koma búgreinadeildir með búgreinaráði.

Kúabændafélagið Baula samþykkti nokkrar tillögur sem verða síðan beint til aðalfundar Landssambands kúabænda og bíða þar afgreiðslu ásamt tillögum frá öðrum aðildarfélögum LK.

Líkar þetta

Fleiri fréttir