Ráðherra staðfesti nýja framtíðarsýn um að styrkja til lengri tíma siglingar yfir fjörðinn

Í hádeginu í gær var haldinn fjarfundur með Sigurði Inga Jóhannssyni samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Bergþóru Þorkelsdóttur vegamálastjóra, ásamt starfsfólki ráðuneytisins. Fyrir hönd sveitarfélaga á Vesturlandi og Vestfjörðum sátu fundinn fulltrúar samtaka Sveitarfélaga á Vesturlandi og Vestfjarðarstofu, ásamt bæjar- og sveitarstjórum þeirra sveitarfélaga sem þjónusta Breiðafjarðarferjuna Baldur, þ.e. Stykkishólmsbæjar, Reykhólahrepps og Vesturbyggðar.

Á fundinum var ráðherra inntur svara um stöðu og öryggi ferjusiglinga yfir Breiðafjörð, til skemmri og lengri tíma, en í kjölfar atburða í síðustu viku er öllum ljóst hvílíkt óöryggi fylgir því að í núverandi ferju er aðeins ein aðalvél. Í ljósi þeirrar hröðu atvinnuuppbyggingar sem er og verður á sunnanverðum Vestfjörðum hafa sveitarfélögin við Breiðafjörð ítrekað bent á mikilvægi þess að styrkja verði ferjusiglingar um Breiðafjörð með nýrri og stærri ferju til að anna aukinni þörf samfélagsins.

Að sögn Jakobs Björgvins Jakobssonar bæjarstjóra í Stykkishólmi staðfesti Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra á fundinum að horfið væri frá fyrri áætlunum um að leggja af ferjusiglingar yfir Breiðafjörð. „Þess í stað verði unnið að framtíðarsýn til lengri tíma, þannig að siglingar yfir Breiðafjörð verði styrktar. Í máli vegamálastjóra kom fram að Vegagerðin og Sæferðir/Eimskip hafi fundað reglulega um stöðuna og séu að leita allra leiða til þess að tryggja öryggi og skapa tiltrú almennings á ferjusiglingum. Þannig er verið að leita allra leiða til þess að bæta úr stöðunni til skemmri tíma,“ sagði Jakob Björgvin.

Í dag, miðvikudag, munu sveitarfélögin á Vesturlandi og Vestfjörðum funda með þingmönnum Norðvesturkjördæmis um stöðuna. Þá verður samkvæmt heimildum Skessuhorns málið tekið upp í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis á morgun, fimmtudag, að frumkvæði Haraldar Benediktssonar 1. þingmanns kjördæmisins.

Líkar þetta

Fleiri fréttir