Svipmynd frá leiksýningu sem Leikdeild Skallagríms setti upp. Ljósm. Leikdeild Skallagríms.

Fjáröflunarskemmtun í Lyngbrekku á föstudaginn

Leikdeild Umf. Skallagríms verður með fjáröflunarskemmtun í félagsheimilinu Lyngbrekku næstkomandi föstudag klukkan 20:30. Þar verður boðið upp á fimm stutta leikþætti sem eru frá 5-20 mínútur að lengd. „Svo munum við spila og syngja nokkur lög og það koma flottir krakkar og sýna dansatriði,“ segir Hafsteinn Þórisson, einn af skipuleggjendum viðburðarins í samtali við Skessuhorn. Öllum miðum fylgja happadrættisnúmer þar sem dregnir verða út nokkrir heppnir gestir sem fá glæsilega vinninga. Þetta er skemmtun fyrir alla fjölskylduna.

„Leikdeild Skallagríms sér um félagsheimilið Lyngbrekku og vegna Covid höfum við, eins og margir aðrir, lent í vandræðum með reksturinn. Næstum allar fermingarveislur, ættarmót, afmælisveislur og slíkt datt út allt síðasta ár en við þurftum enn að borga 80 þúsund krónur á mánuði fyrir rafmagn. Við vorum komin í mikið basl og ákváðum þess vegna að halda svona fjáröflunarskemmtidagskrá,“ segir Hafsteinn og bætir við að gætt verði að öllum sóttvarnrareglum á viðburðinum. „Við getum ekki tekið á móti nema 60-70 manns þar sem við munum að sjálfsögðu passa upp á að hægt verði að halda fjarlægðarmörkum. Ef eftirspurnin verður rosalega mikil kemur til greina að bæta við öðru kvöldi viku seinna en eins og er gerum við ráð fyrir að þetta verði bara þessi eini viðburður næsta föstudag,“ segir Hafsteinn.

Líkar þetta

Fleiri fréttir