Katrín Jakobsdóttir og Ásmundur Einar Daðason kynnti átaksverkefnið „Hefjum störf.“ Ljósm. Stjórnarráðið.

Verja á fimm milljörðum króna í tímabundin störf

Undir vikulokin kynntu Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra nýtt átaksverkefni sem nefnist „Hefjum störf – umfangsmiklar vinnumarkaðsaðgerðir fyrir atvinnuleitendur og atvinnulífið.“ Búið er að skrifa undir reglugerð sem felur í sér sérstakt atvinnuátak þar sem markmiðið er að skapa allt að 7.000 tímabundin störf í samvinnu við atvinnulífið, opinberar stofnanir, sveitarfélög og félagasamtök. Ráðgert er að verja 4.500 – 5.000 milljónum króna úr ríkissjóði til þessara aðgerða.

Auðveldara verður nú fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki að ráða fólk til starfa. Fyrirtæki sem hafa færri en 70 starfsmenn geta ráðið atvinnuleitendur sem hafa verið án atvinnu í 12 mánuði eða lengur með ríflegum stuðningi. Hverjum nýjum starfsmanni fylgir allt að 472 þúsund króna stuðningur á mánuði, auk 11,5% framlags í lífeyrissjóð, í allt að sex mánuði og getur fyrirtækið ráðið eins marga starfsmenn og það þarf þangað til heildar starfsmannafjöldi hefur náð 70. Ráðningartímabilið er sex mánuðir á tímabilinu frá apríl til desember 2021.

Þá geta fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum nýtt sér ráðningarstyrki sem auðvelda atvinnurekendum að ráða starfsfólk og fjölga atvinnutækifærum þeirra sem eru án atvinnu. Með ráðningarstyrk getur atvinnurekandi fengið fullar grunnatvinnuleysisbætur með hverjum atvinnuleitanda sem hefur verið án vinnu í 30 daga eða lengur í allt að sex mánuði með hverjum nýjum starfsmanni, eða 307.430 krónur á mánuði, auk 11,5% framlags í lífeyrissjóð. Ekkert þak er á fjölda starfsmanna sem fyrirtæki geta ráðið með þessu úrræði.

Sveitarfélög og opinberar stofnanir

„Til að koma til móts við þann hóp sem er við það að fullnýta bótarétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins og hefur ekki fengið atvinnu við lok bótatímabilsins, verður farið í sérstakar aðgerðir til að aðstoða einstaklinga í þessum hópi við að komast aftur inn á vinnumarkað. Þannig greiðir Vinnumálastofnun ráðningarstyrk í allt að sex mánuði, og er heimilt að lengja um aðra sex mánuði fyrir einstaklinga með skerta starfsgetu, vegna ráðningar einstaklinga sem eru við það að ljúka bótarétti. Er stofnuninni heimilt að greiða ráðningarstyrki sem nema fullum launum samkvæmt kjarasamningum að hámarki kr. 472.835 á mánuði sem er hámark tekjutengdra bóta auk 11,5% mótframlags í lífeyrissjóð. Skilyrði er að ráðinn sé einstaklingur sem á sex mánuði eða minna eftir af bótarétti. Þá er sveitarfélögum einnig heimilt að ráða til sín einstaklinga sem fullnýttu bótarétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins á tímabilinu 1. október. til 31. desember 2020.“

Félagasamtök

„Félagasamtök, sem rekin eru til almannaheilla og án hagnaðarsjónarmiða, er gert kleift að stofna til tímabundinna átaksverkefna í vor og sumar með ráðningarstyrk sem nemur fullum launum samkvæmt kjarasamningum að hámarki kr. 472.835 á mánuði sem er hámark tekjutengdra bóta auk 11,5% mótframlags í lífeyrissjóð. Þá verður greitt 25% álag til þess að standa straum af kostnaði við verkefnin, svo sem við landvernd, viðhald göngustíga, landhreinsun, gróðursetningu, íþróttir og afþreyingu fyrir börn og unglinga og svo framvegis. Skilyrði fyrir ráðningarstyrk er að viðkomandi atvinnuleitandi hafi verið án atvinnu í 12 mánuði eða lengur.“

Sumarstörf fyrir námsmenn

Stjórnvöld ætla að ná til þess hóps námsmanna sem ekki fær starf eða aðgang að öðru úrræði í sumar og verður það kynnt síðar í samstarfi við mennta- og menningarmálaráðuneytið og aðra hagsmunaaðila.

„Þó að Covid-19 faraldurinn hafi varað lengur en við gerðum ráð fyrir þá styttist hann í annan endann. Daginn er tekið að lengja, sífellt fleiri Íslendingar fá bólusetningu og nú hefst viðspyrnan. Við erum hér að kynna gríðarlega stórar aðgerðir fyrir bæði atvinnuleitendur og atvinnulífið sem hjálpa okkur í öflugri viðspyrnu að loknum faraldri. Ég hvet fyrirtæki, stofnanir, sveitarfélög og félagasamtök til að nýta þetta úrræði og ráða fólk. Við mætum óvissunni með krafti og bjartsýni og saman keyrum við þetta í gang,“ sagði Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra, þegar hann kynnti reglugerðina.

Líkar þetta

Fleiri fréttir