Hannes S Jónsson í ræðustól. Hann var endurkjörinn formaður KKÍ. Ljósm. kkí.

Hannes endurkjörinn formaður KKÍ

Ársþing Körfuknattleikssambands Íslands var haldið sem fjar-þing í gær. Á því var Hannes S Jónsson formaður endurkjörinn til næstu fjögurra ára. Með honum í stjórn til fjögurra ára eru Guðbjörg Norðfjörð Elíasdóttir, Birna Lárusdóttir, Jón Bender og Lárus Blöndal. Kosingu til tveggja ára hlutu Herbert Arnarson, Guðni Hafsteinsson, Erlingur Hannesson, Einar Karl Birgisson og Guðrún Kristmundsdóttir. Nýkjörin stjórn KKÍ mun skipta með sér verkum á fyrsta fundi í samræmi við lög KKÍ.

Fyrir þinginu lágu fimm tillögur, sem allar má sjá á heimasíðu KKÍ. Meðal afgreiðslna á þinginu má nefna að lög KKÍ voru samþykkt óbreytt, tillaga um fjölda erlendra leikmanna var felld, tillaga um kynblönduð lið var felld, en afreksstefna KKÍ var samþykkt óbreytt.

Fyrst sérsambanda að bregðast við

Í ræðu Hannesar formanns á þinginu bar ástandið vegna Covid-19 á góma. Sama dag og þingið var haldið var rétt ár liðið frá því Íslandsmótið 2019-2020 var blásið af. „Heimsfaraldur Covid-19 hefur sett mark sitt á allt síðasta ár. Hægt er að segja að faraldurinn hafi haft afdrifarík áhrif á allt daglegt líf okkar síðustu 12 mánuði, minnug þess að þennan sama dag, 13. mars, fyrir ári síðan, fóru síðustu leikir tímabilsins 2019-2020 fram. Áhrif faraldursins þekkjum við öll, en þau hafa reynt verulega á körfuboltafjölskylduna og allt þjóðfélagið. Svo sannarlega var, og er enn, um fordæmalausa tíma að ræða,“ sagði Hannes.

Hann rifjaði upp að síðasta vor lá fyrir stjórn KKÍ að leysa eitt erfiðasta verkefni sambandsins frá upphafi. Ekki var hægt að sækja í nein fordæmi eða nýta reynslu annarra. „Sú gagnrýni sem heyrðist var réttmæt, því vitað er að ekki var hægt að taka „réttar“ ákvarðanir við þessar aðstæður og fá sanngjarna niðurstöðu – eina leiðin til þess er að leika mótin til enda. Við vitum það líka að hefði stjórn KKÍ tekið aðrar ákvarðanir, þá hefði sama gagnrýni borist úr öðrum áttum, og hefði hún verið jafn réttmæt. KKÍ var eitt af fyrstu sérsamböndum Evrópu, ef ekki heimsins, til að takast á við þá stöðu sem uppi var og ákveða hvernig ljúka skyldi keppnistímabilinu 2019-2020. Körfuboltasambönd margra annarra þjóða leituðu þess vegna til KKÍ eftir samtali og leiðsögn vorið 2020. KKÍ fékk sérstakt hrós frá FIBA vegna þess hvernig tekið var á málum hér á landi og lýsti FIBA yfir góðum stuðningi við ákvarðanir sambandsins.“

Hægt er að lesa ræðu formannsins í heild á vef KKÍ.

Líkar þetta

Fleiri fréttir