Komið með Baldur að landi í Stykkishólmi síðasta sumar eftir að sambærileg vélarbilun varð. Ljósm. úr safni/ sá

Til stendur að koma Baldri að bryggju á eftir

Flóabáturinn Baldur lónar enn á Breiðafirði skammt utan við Stykkishólm. Skipið varð vélarvana á miðri siglingarleið frá Brjánslæk til Stykkishólms klukkan 14:30 í gær. Í fyrstu var varpað ankerum til að koma í veg fyrir rek undan stífum norðaustan vindi en eftir að öflug skip voru komin á svæðið var Baldur dreginn í áttina að landi af rannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni. Ekki reyndist unnt að koma skipinu að bryggju í gær og varð því áhöfnin og farþegar að dvelja í því í nótt. Veður hefur verið slæmt á firðinum. Norðaustan hvassviðri og talsverð ölduhæð. Ekki fór því vel um fólkið samkvæmt upplýsingum Skessuhorns, einkum um tíma snemma í nótt þegar reynt var að snúa því upp í vindinn utan við Grundarfjörð. Var þá mikill veltingur og fólk um borð sjóveikt og sumir hræddir. Einhverjir náðu að sofa um tíma í nótt en aðrir sem lítið sem ekkert hafa sofið. Vel er þó hugsað um farþega miðað við aðstæður.

Þegar veður gengur niður þegar nær dregur hádegið er ætlunin að hollenski dráttarbáturinn Fönix frá Reykjavík taki Baldur í tog og dragi hann til hafnar. Bæði Árni Friðriksson og varðskipið Þór hafa fylgt Baldri síðan í gær.

Gunnlaugur Grettisson, framkvæmdastjóri Sæferða, sem gera Baldur út fyrir Vegagerðina, sagði í morgunfréttum Ríkisútvarpsins að skipin lónuðu nú skammt utan við Stykkishólm. Enn er nokkur vindur. Gunnlaugur gerði ráð fyrir að reynt verði að koma línu milli dráttarbátsins og ferjunnar þegar birtir og veður gengur niður. Að því loknu verður Baldur dreginn í höfn.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Mokveiði í dragnót

Dragnótarbáturinn Steinunn SH frá Ólafsvík lenti heldur betur í mokveiði rétt undan Ólafsvík á sunnudaginn. Köstuðu skipverjar dragnótinni aðeins þrisvar... Lesa meira