Hér er rannsóknaskipið Árni Friðriksson með Baldur í togi. Ljósm. tekin úr þyrlu Landhelgisgæslunnar.

Þingmenn kjördæmisins færðu í tal bilaðan Baldur

Fimm þingmenn Norðvesturkjördæmis lýstu á Alþingi í morgun yfir áhyggjum sínum af stöðu samgangna á Vestfjörðum vegna bilunar á einu vél Beiðafjarðarferjunnar Baldurs. Þingmennirnir fimm bentu allir á mikilvægi siglinga yfir Breiðafjörð sem hluta af samgöngum við sunnanverða Vestfirði. Þá sögðu þeir að tryggja þurfi öruggar siglingar yfir fjörðinn með nýrri ferju þar sem núverandi ferja standist engar kröfur.

Mikilvægt að sigla á nýju skipi

Guðjún S. Brjánsson þingmaður Samfylkingarinnar sagði: „Skuggalegt að vita af ferjunni Baldri danglandi úti á miðjum Breiðafirði vélarvana í nótt í þræsingsveðri og ekki enn búið að ná fullri stjórn á aðstæðum.“ Hann benti á að þetta væri gamalt skip sem ekki standist kröfur okkar tíma þar sem skipið væri aðeins með eina vél og enga til vara. Þá benti hann á að þegar Baldur bilaði í gær hafi allar samgöngur frá sunnanverðum Vestfjörðum lokast þar sem ekki hefur verið flogið til Bíldudals í tvo daga og samgönguleiðir á landi lokaðar vegna færðar. Hann benti á að Baldur hafi einnig bilað síðasta sumar af sömu ástæðum og að heimamenn hafi kallað eftir nýrri ferju. Guðjón sagði ekki boðlegt að bjóða fólki upp á ferju sem tryggir ekki öryggi farþega og áhafnar. Að lokum sagði hann það mikilvægt að halda áfram að sigla yfir Breiðafjörð en það verði að gera á nýju skipi.

Kominn tími á Baldur

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði að „ferjan Baldur flýtur vélarvana á Breiðafirði með tæplega 30 manns innanborðs. Aðstæður á vettvangi hafa verið krefjandi vegna veðurs en það er varðskip og dráttarbátur komin að ferjunni og eru að koma henni að landi og þá verða farþegar komnir heilir í höfn eftir sólarhringsferð. Þetta er þriggja klukkustunda ferð, eða tæplega það.“ Hún benti á að ferjan Baldur hafi verið kölluð brúin yfir til Vestfjarða og að hún sé mikilvægur hluti af samgöngum við sunnanverða Vestfirði, sérstaklega á veturna þegar samgöngur á landi geti verið erfiðar. Að lokum benti hún á að þar sem aðeins væri ein vél í Baldri væri tími þessarar ferju liðinn.

Bagalegt ástand

Sigurður Páll Jónsson, þingmaður Miðflokksins, benti á að þetta væri þriðja alvarlega bilunin í Baldri á þremur árum og að í janúar síðastliðnum hafi hann talað um þessar áhyggjur sínar af ástandi þessarar leiðar. „Nú er Baldur bilaður og verið að undirbúa að draga í land og er búinn að vera á sjó á reki síðan í gær. Þetta er 44 ára gamalt skip með eina aðalvél sem er í raun og veru bannað í svona ferjum. Hann er á undanþágu með þennan búnað. Það fást ekki varahlutir í svona vél með góðu móti. Þetta er mjög bagalegt ástand,“ sagði Sigurður Páll. „Ég brýni fyrir stjórnvöldum; samgönguráðherra, Vegagerð og rekstraraðilum að setjast núna niður og undirbúa kaup á nýrri ferju, og það strax. Það er ekki hægt að una við þetta lengur,“ sagði hann að endingu.

Mikilvægt að treysta á samgöngur um Breiðafjörð

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, byrjaði á að benda á að það væri bara gott að ekki hafi farið verr þegar Baldur varð vélarvana á Breiðarfirði í gær. „Ekki var hægt að koma ferjunni til hafnar í gær og í nótt sváfu 28 manns um borð, þar á meðal börn, rétt sunnan við Bjarneyjar í Breiðafirði í leiðinda slagviðri,“ sagði Lilja Rafney. Hún benti á mikilvægi þess að geta treyst á samgöngur um Breiðafjörð þar sem ljóst sé að Kléttsháls verði um langa framtíð illfær að vetrarlagi og að þær umbætur sem nú séu á teikniborðinu muni ekki leysa þann vanda. Hún sagði það ljóst að útvega þyrfti nýja ferju og skoraði á samgönguráðherra að taka þetta mál til umfjöllunar.

Tilviljun að ekki fari illa

Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og 1. þingmaður kjördæmisins, tók undir hvert orð sem aðrir þingmenn Norðvesturkjördæmis höfðu sagt. „Ég tek undir þeirra ræður og hvert orð vel valið sem þar var sagt og geri þau orð að mínum,“ sagði Haraldur. Hann sagði þingmenn Norðvesturkjördæmis hafa fyrir ekki löngu síðan fundað með stjórnendum Vegagerðarinnar um málefni Balurs og um málefni samgangna á sunnanverðum Vestfjörðum. Sagði hann þetta ekki ganga lengur með þessum hætti og brýnt að þetta verði forgangsatriði stjórnvalda að taka á þessum samgöngumálum. „Ég sendi kveðjur til þess fólks sem nú situr um borð í Breiðafjarðarferjunni Baldri og vona að allt fari vel. En ég vil líka segja að þetta þarf og verður að vera síðasta bilunin í því skipi því á þessu viðksæma hafsvæði að sigla með ferju sem aðeins er með eina vél er aðeins tilviljun að ekki fer illa,“ sagði Haraldur.

Líkar þetta

Fleiri fréttir