Stuðningsgreiðslur til bænda vegna áhrifa Covid-19

Kristján Þór Júlíusson landbúnaðarráðherra hefur lokið við útfærslu á ráðstöfun fjármuna til sauðfjár- og nautgripabænda til að mæta áhrifum Covid-19 á íslenskan landbúnað. Meðal aðgerða var aukinn stuðningur við bændur. Við afgreiðslu fjárlaga 2021 var samþykkt að verja 970 milljónum króna til að koma til móts við skaðleg áhrif Covid-19 á íslenska bændur. Í nefndaráliti meirihluta fjárlaganefndar við afgreiðslu málsins var miðað við að 75% fjármagnsins rynnu til sauðfjárbænda og 25% til kúabænda. Nú liggur fyrir útfærsla á dreifingu þessara fjármuna sem unnin var í samráði við Bændasamtök Íslands, Landssamtök sauðfjárbænda og Landssamband kúabænda. Fjármunum til sauðfjárbænda, alls 727 m.kr., verður ráðstafað með eftirfarandi hætti: Viðbótargreiðsla á gæðastýringarálag kindakjöts 2020 – 562 m. krónur sem greitt verður út nú í mars. Þetta þýðir að greiðslan til bænda hækkar um þriðjung frá því sem áður hefur verið greitt vegna ársins 2020. Viðbótargreiðsla á ullarframleiðslu verður 65 m.kr. Bætist við greiðslu vegna ullarnýtingar þegar uppgjör fer fram um mitt ár 2021.

Greiðslur til nautgripabænda verða 243 m.kr. og verður ráðstafað með eftirfarandi hætti: Viðbótargreiðsla á alla ungnautagripi 2020 – 243 m. kr. Greitt í mars 2021. Greiðslan dreifist á alla UN gripi sem komu til slátrunar á árinu 2020.  Það eru alls tæplega 11.000 gripir og aukagreiðslan er tæpar 22.400 kr. á hvern.

Líkar þetta

Fleiri fréttir