Hætta tímabundið að nota AstraZeneca bóluefnið

Bólusetning með bóluefni frá sænsk-breska lyfjafyrirtækinu AstraZeneca hefur tímabundið verið stöðvuð hér á landi. Frá þessu greindi Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir á upplýsingafundi vegna Covid-19 í gær. Tengist þessi ákvörðun hugsanlegum tengslum milli bóluefnisins og blóðtappa. Fréttir hafa borist frá nokkrum löndum í Evrópu um að blóðtappar hafi orðið hjá fólki í kjölfar bólusetningar með þessu bóluefni. Þá hefur verið tilkynnt um eitt dauðsfall í Danmörku og eitt í Austurríki. „Þessar upplýsingar komu rétt fyrir fundinn og í tilkynningu frá Lyfjastofnun Evrópu segir að það virðist ekkert benda til að hér sé um orsakasamhengi að ræða,“ sagði Þórólfur á fundinum. Samkvæmt tölum á covid.is er þegar búið að bólusetja tæplega níu þúsund manns með bóluefninu frá AstraZeneca.

Líkar þetta

Fleiri fréttir