Bæjarráð vill að Elkem bjóðist samkeppnishæft raforkuverð

Bæjarráð Akraneskaupstaðar tók á síðasta fundi sínum undir orð forstjóra Elkem á Íslandi sem féllu í nýlegu viðtali í Fréttablaðinu. Þar sagði Álfheiður Ágústsdóttir að íslensk stjórnvöld hafi nú gullið tækifæri til að búa þessu efnahagslega mikilvæga fyrirtæki samkeppnishæft rekstrarumhverfi á Íslandi til lengri framtíðar. Álfheiður segir að gerðardómur um raforkuverð til fyrirtækisins, sem féll árið 2019, hafi grafið undan samkeppnishæfni Elkem, en mettap varð á rekstri fyrirtækisins í fyrra. Að óbreyttum raforkusamningi sé líklegt að eigendur skoði að loka verksmiðjunni.

„Samhliða samkeppnishæfu raforkuverði kæmi einnig til stuðningur við nýsköpun og fjölnýtingu. Þannig má auka verðmætasköpun og hagnýta það forskot sem Ísland hefur í framleiðslu á endurnýjanlegri raforku. Má þar nefna þróun aðferða til að fanga og nýta koltvísýring úr útblæstri Elkem á Íslandi og lækka um leið kolefnisspor Íslands,“ segir í bókun bæjarráðs Akraneskaupstaðar. „Bæjarráð tekur einnig undir með forstjóra Elkem að horft verði til Noregs sem fyrirmynd að slíku samstarfi. Það er skynsamleg ráðstöfun fjármuna að stjórnvöld skili stærstum hluta af grænum álögum aftur til atvinnulífsins í formi grænna styrkja til nýsköpunar með áherslu á að Ísland nái metnaðarfullum markmiðum sínum í loftslagsmálum. Það markmið mun ekki nást nema með náinni samvinnu stjórnvalda og atvinnulífs á Íslandi.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir