Þórdís Sif Sigurðardóttir sveitarstjóri steig upp í nýlega gröfu frá Borgarverki og tók fyrstu skóflustunguna að nýrri íbúðabyggð. Ljósm. Skessuhorn/mm

Skóflustunga að nýju hverfi í Borgarnesi

Í dag var tekin fyrsta skóflustungan að nýju hverfi í Bjargslandi í Borgarnesi við götu sem fær nafnið Sóleyjarklettur. Verkefnið er í höndum hlutafélagsins Slatti ehf. en það er í jafnri eigu Steypustöðvarinnar, Borgarverks og Trésmiðju Eiríks J Ingólfssonar. Upphaflega samþykkti byggðarráð Borgarbyggðar í ársbyrjun 2020 að leitað yrði samstarfs við fyrirtækin um hönnun, gatnagerð, byggingu og sölu íbúða á svæðinu. Í fyrri áfanga verkefnisins verða byggðar 30 íbúðir í sex fjölbýlishúsum. Gert er ráð fyrir að lokið verði við fyrsta húsið á þessu ári og annað húsið á því næsta. Framvindan mun ráðast af sölu húsanna. Í síðari áfanga verkefnisins verða byggð einbýlishús, raðhús og parhús við götuna. Fullbyggt við götuna gerir skipulagið ráð fyrir alls 80 íbúðum. Áætlað er að framkvæmdir við fyrsta áfangann hefjist um leið og allar leyfisveitingar liggja fyrir, eigi síðar en í apríl næstkomandi. Búið er að slétta og þjappa púða á lóðinni fyrir fyrsta fjölbýlishúsið á svæðinu og má því reikna með að sökklar sjáist þar strax á næstu vikum.

Það var Þórdís Sif Sigurðardóttir sveitarstjóri sem steig upp í gröfu og tók fyrstu skóflustunguna. Í kjölfarið var skrifað undir samning við athöfn á Hótel B-59 um verkefnið milli Borgarbyggðar og fulltrúa fyrirtækjanna sem koma að verkefninu. Fram kemur í tilkynningu frá Borgarbyggð að markmið með samningnum sé að auka framboð nýs og fjölbreytts húsnæðis í Borgarnesi og leitast þannig við að efla og þróa byggð í Borgarbyggð til hagsbóta fyrir sveitarfélagið, íbúa þess og atvinnulíf á svæðinu. „Með undirritun samningsins eru framkvæmdaraðilar að skuldbinda sig til þess að sjá um uppbyggingu svæðisins í heild sinni, en um er að ræða heilt íbúðahverfi með fjölbýlis-, par- og raðhúsum. Jafnframt liggur fyrir að hluti lóða í hverfinu verður boðinn til úthlutunar á almennum markaði en fyrirkomulag úthlutunar verður auglýst síðar. Framlag sveitarfélagsins felst meðal annars í því að veita vilyrði fyrir úthlutun lóða á tilgreindu deiliskipulagssvæði,“ segir í tilkynningu af þessu tilefni.

Þórdís Sif sveitarstjóri sagði að lokinni undirritun samningsins að það væri ánægjulegt að sjá þetta samstarfsverkefni verða að veruleika og batt hún miklar vonir við það sem lyftistöng fyrir samfélagið í sveitarfélaginu. „Blómleg uppbygging í Bjargslandi mun hafa jákvæð áhrif á sveitarfélagið í heild sinni og vonir standa til þess að þetta verkefni verði til þess að fleiri fyrirtæki fari af stað með byggingarframkvæmdir í Borgarbyggð,“ sagði Þórdís.

Að verkefninu standa þrjú fyrirtæki sem stofnað hafa fyrirtækið Slatta ehf. utan um það. F.v. Þórdís Sif Sigurðardóttir sveitarstjóri, Ottó Ólafsson frá EJI ehf, Óskar Sigvaldason framkvæmdastjóri Borgarverks, Eiríkur J Ingólfsson, Hörður Pétursson frá Steypustöðinni og Ólafur Sveinsson formaður stjórnar Steypustöðvarinnar sem jafnframt verður í forsvari fyrir Slatta ehf. Ljósm. Skessuhorn/mm

Líkar þetta

Fleiri fréttir