Óvíst hvort hægt verður að koma Baldri til hafnar í dag

Eins og greint var frá í frétt Skessuhorns nú síðdegis kom upp vélarbilun í aðalvél flóabátsins Baldurs um um kl. 14:30 í dag þar sem skipið var á siglingu innarlega á Breiðafirði, ekki langt frá hættulegri siglingaleið vegna fjölda skerja. Samkvæmt heimildum Skessuhorns er ekki víst að takist að koma skipinu til hafnar í dag vegna veðurs og verður mögulega beðið til morguns. Skipið liggur nú við ankeri, á tiltölulega góðum stað miðað við aðstæður. Vindátt er úr norðaustri og nokkur alda og ef rek yrði á skipinu ræki það frá landi og grynningum, samkvæmt tilkynningu frá Landhelgisgæslunni. Samkvæmt Marine Traffic er björgunarbáturinn Björg frá Rifi á svæðinu við Baldur og rannsóknaskipið Árni Friðriksson sömuleiðis. Varðskipið Þór er á leið á svæðið, nú statt út af Hellnum. Áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar hefur verið sett í viðbragðsstöðu. Sjóbjörgunarsveitir á Snæfellsnesi voru jafnframt kallaðar út.

Á vef Stykkishólmsbæjar er lýst áhyggjum yfir endurteknum bilunum í skipinu, en það er knúið með einungis einni aðalvél. „Stykkishólmbær hefur ítrekað bent á að styrkja þurfi ferjusiglingar um Breiðafjörð með stærri og nýrri ferju til að anna aukinni þörf samfélagsins og vakið athygli á að í ferjunni sé ekki fyrir hendi varavél (tvær aðalvélar). Í þessu sambandi hefur verið lögð áhersla á að samningur við Vegagerðina þurfi að vera til lengri tíma en núverandi samningar gera ráð fyrir. Atburðir dagsins er enn ein áminningin um óboðlega stöðu sem við sem samfélag viljum ekki búa við og íbúar svæðisins sætta sig ekki við. Mikilvægt er að málið verði tekið föstum tökum,“ segir í tilkynningu frá Stykkishólmsbæ.

Á Facebook síðu Sæferða er sagt að um borð í Baldri séu nú 28 manns; átta manna áhöfn og tuttugu farþegar. Þá eru m.a. flutningabílar með laxi í skipinu. Á vef Vegagerðarinnar er engar upplýsingar að finna um óhappið.

Líkar þetta

Fleiri fréttir