Veturinn er ekki alveg búinn

Eftir mjög gott tíðarfar undanfarnar vikur og mánuði hefur vetur konungur aftur minnt hressilega á sig.

Gul viðvörun Veðurstofunnar er í gildi fyrir Vesturland til miðnættis í kvöld. Í viðvörun Veðurstofunnar segir m.a.: „Hvassviðri eða stormur og jafnvel staðbundið rok og hríð á Snæfellsnesi, snjókoma eða skafrenningur. Snarpar vindhviður við fjöll. Varasamt fyrir bíla sem taka á sig mikinn vind. Versnandi akstursskilyrði og blint, einkum á fjallvegum.“

Veðurspáin hljóðar upp á norðan og norðaustan 10-18 m/s, en 15-23 með deginum um landið norðvestan- og vestanvert. Úrkomulítið sunnanlands, annars víða slydda eða snjókoma, en rigning austast á landinu. Hiti kringum frostmark, en hiti að 5 stigum með suður- og austurströndinni.

Í hugleiðingum veðurfræðings segir:

Nú í morgunsárið er djúp lægð, 958 mb, stödd milli Íslands og Færeyja. Lægðin nálgast okkur enn frekar í dag og veldur hvassri norðanátt á landinu ásamt ofankomu sem einkum verður bundin við norðurhelming landsins. Önnur djúp lægð er nú langt suður í hafi, en sú er á leið til norðurs og verður komin fyrir austan land á morgun og viðheldur þar lágum þrýstingi og stífri norðanátt á landinu fram á helgi.

Í dag og á morgun má semsagt búast við stormi í vindstrengjum á norðvestan- og vestanverðu landinu, en minni veðurhæð austantil. Einnig er útlit fyrir talsverða ofankomu á norðurhelmingi landsins og viðbúið að færð spillist á fjallvegum og jafnvel víðar.

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á föstudag:

Norðan og norðaustan 10-18 m/s og snjókoma norðan- og austanlands, hvassast undir Vatnajökli, en annars bjart með köflum. Vægt frost víða um land, en frostlaust syðra yfir daginn.

Á laugardag:

Norðan 8-15 m/s og dálítil él á N-verðu landinu, en léttskýjað sunnan heiða. Frost 0 til 7 stig, minnst SA-lands.

Á sunnudag:

Norðlæg átt, 3-10 m/s og skýjað með köflum, en stöku él á A-landi. Áfram kalt í veðri.

Líkar þetta

Fleiri fréttir