Þessi mynd var tekin meðan lagnavinna og gatnagerð var í fullum gangi hjá Borgarverki við Fjóluklett. Ljósm. Skessuhorn/mm.

Skóflustunga að fyrstu húsbyggingum við Fjóluklett í Borgarnesi

Á morgun, fimmtudag, verður tekin fyrsta skóflustungan að byggingu húsa við nýja götu í Bjargslandi í Borgarnesi. Gatan heitir Sóleyjarklettur og er ofan við höfuðstöðvar kaupfélagsins við Egilsholt, liggur samhliða Stöðulsholti. Borgarverk hefur unnið við gatnagerð og lagnir á svæðinu frá því á síðasta ári. Verkefnið er samstarf þriggja öflugra fyrirtækja í Borgarnesi og er tilraunaverkefni þar sem allt frá hönnun til fullbúinna húseigna er í höndum fyrirtækjanna, en í samráði við Borgarbyggð. Fyrirtækin eru Eiríkur J Ingólfsson ehf, Steypustöðin og Borgarverk.

Í fyrsta áfanga er gert ráð fyrir að byggja sex fjölbýlishús með samtals 30 íbúðum. Verða það tveggja hæða hús með fimm íbúðum í hverju. Fjórar íbúðirnar verða 85 fermetrar auk geymslu en ein verður minni, eða 48 fm. Framkvæmdir við þennan fyrsta áfanga gatnagerðar hófust síðastliðinn vetur og hefur tafist lítillega miðað við fyrstu verkáætlanir að hefja húsbyggingar. Eins og fram kom í viðtölum í Skessuhorni við framkvæmdastjóra EJI ehf og Borgarverks á síðasta ári mun framvinda verkefnisins ráðast af viðtökum á markaðinum og sölu íbúðanna. Í seinni áfanganum við Sóleyjarklett er gert ráð fyrir parhúsum og einbýlishúsum þannig að alls verði um sextíu íbúðir á svæðinu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir