Jóhanna Fjóla Jóhannesdóttir, forstjóri HVE.

Langur biðtími eftir símaviðtölum við lækna í Borgarbyggð

Mikið álag hefur verið á Heilbirgðisstofnun Vesturlands undanfarið. Biðtími íbúa í Borgarbyggð eftir viðtölum eða símatímum hefur verið langur, en Skessuhorni hafa borist ítrekaðar ábendingar um að fólk hafi þurft að bíða í mánuð eftir að fá símatíma hjá lækni. Jóhanna Fjóla Jóhannesdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vesturlands, segir þennan langa biðtíma vissulega of langan og skiljanlega erfiðan fyrir íbúa. Spurð um skýringar segir hún ástæðurnar margþættar og fyrst og fremst tengjast því að skortur hafi verið á læknum og svo virðist sem þessi símaþjónusta sé meira notuð í Borgarbyggð en á öðrum heilsugæslustöðvum HVE. Skýringin gæti ef til vill verið sú að þjónustusvæði heilsugæslustöðvarinnar er víðfemt. „Við vitum af þessum langa biðtíma og vinna við að leita lausna er komin af stað. Við höfum ákveðið að bæta við lækni í Borgarnesi þrjá daga í viku tímabundið og erum að skoða aðrar lausnir eins og hvernig við getum notað rafræna þjónustu í gegnum Heilsuveru meira,“ segir Jóhanna Fjóla. „Símatímar eru ætlaðir fyrir stutt erindi og við gerum okkur grein fyrir að löng bið er ekki boðleg. Það er því verið að vinna í að hægt verði að senda stuttar fyrirspurnir í gegnum Heilsuveru og að fá svör til baka til að létta á símaþjónustu,“ segir Jóhanna Fjóla.

Sjá nánar spjall við Jóhönnu Fjólu í Skessuhorni sem kom út í dag.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir