Nýtt fjölbýlishús sem rís við Asparskóga 18 mun líta svona út. Teikning: Idé auglýsingastofa.

Jarðvegsframkvæmdir hafnar við stærstu íbúðablokkina á Akranesi

Á mánudaginn hófust framkvæmdir við nýtt fjölbýlishús sem rísa mun við Asparskóga 18 á Akranesi. Um er að ræða 40 íbúða hús og er byggingaraðili Barium ehf. sem byggir húsið fyrir Ferrum Fasteignafélag. Hönnuður hússins er Runólfur Þ Sigurðsson hjá Al-Hönnun ehf. Að sögn Engilberts Runólfssonar, verkefnastjóra Barium, er byggingartími hússins áætlaður um 16 til 18 mánuðir og ættu íbúðirnar því að verða tilbúnar til afhendingar sumarið 2022.

Að sögn Engilberts er mikill áhugi á húsinu og átta íbúðir þegar fráteknar. Hann segir þennan mikla áhuga meðal annars skýrast af því að nýr leikskóli verður örfáa metra frá húsinu auk þess sem nýr grunnskóli mun rísa við hlið leikskólans innan fárra ára. Þá segir hann að mjög verði vandað til allra verka og í efnisvali og að húsinu fylgi bílageymsla. Jafnframt tekur hann fram að húsið sé stærsta fjölbýlishús sem byggt hefur verið á Akranesi.

Á heimasíðu verkefnisins, asparskogar.is, má finna nánari upplýsingar um verkefnið auk þess sem kostir Akraneskaupstaðar eru tíundaðir og bent á hina miklu uppbyggingu og framkvæmdir sem eiga sér stað á Akranesi um þessar mundir.

Byrjað var að grafa fyrir húsinu á mánudaginn. Ljósm. Kolla Ingvars.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Gleðilegt sumar!

Skessuhorn óskar lesendum sínum, ungum sem gömlum, til sjávar og sveita, gleðilegs sumars.