Skjáskot Guðmundar af fréttasíðu Komsomolskaja Pravda.

Formannsframbjóðandi í VR auglýsir á rússneskri fréttasíðu

Markaðsfólk samtímans notar úthugsaðar, og stundum ágengar, leiðir til að ná augum almennings. Tækni sem byggir m.a. á algórithma og persónugreinanlegum upplýsingum fólks er notuð til að leita það uppi á vefsíðum og skiptir þá engu hvar þessar síður eru, svo lengi sem þær selja aðgang að auglýsingaplássum þeirra. Guðmundur Ólafsson hagfræðingur er íslenskur karlmaður á áttræðisaldri, sestur í helgan stein, en virkur á samskiptamiðlum. Þá fylgist hann grannt með stjórnmálum víða um heim, meðal annars rússneskum fréttamiðlum, en hann stundaði nám í stærðfræði og rússnesku í Leningrad á sínum yngri árum. Í gær var Guðmundur að lesa Komsomolskaja Pravda sér til ánægju og yndisauka. Birtist þá á síðunni auglýsing frá Helgu Guðrúnu Jónasdóttur frambjóðanda til formanns í Verslunarmannafélagi Reykjavíkur. Guðmundur varð klumsa: „Maður spyr, hvaðan kemur fátækri alþýðukonu fé til að auglýsa í rússneskum fjölmiðlum,“ spyr hann, og þar að auki kona sem hallast mjög á hægri væng stjórnmálanna. Guðmundur bætir því við að hann sé ekki félagsmaður í VR, en vissulega gæti hann hafa tjáð sig um málefni félagsins.

Líkar þetta

Fleiri fréttir