Samræmt könnunarpróf mistókst í framkvæmd og var öllum frestað

Samræmt könnunarpróf í íslensku var lagt fyrir nemendur níunda bekkja grunnskóla landsins í gær, mánudag. Líkt og gerst hefur áður komu upp alvarleg tæknileg vandamál í prófakerfinu. Vandinn lýsti sér þannig að margir nemendur áttu erfitt með að komast inn í prófin eða duttu út úr kerfinu áður en þeir höfðu lokið próftöku. Hluti nemenda tók því prófið við ófullnægjandi aðstæður og eru þau því niðurstaða þeirra engan vegin samræmanleg á landsvísu. Veruleg óánægja er vegna þessara hörmunga í skólasamfélaginu, hjá foreldrum og að sjálfsögðu börnunum sjálfum. Almennt er það gagnrýnt að lögð séu fyrir samræmd próf yfirleitt því vandséð hvaða tilgangi þau eiga að þjóna. Á undanförnum árum hafa auk þess ítrekað komið upp vandamál þar sem sökinni er komið á tækni og tæknifyrirtæki en um leið reynt að fría þá ábyrgð sem sjá eiga um að allt gangi sem skyldi.

„Menntamálastofnun ber ábyrgð á framkvæmd samræmdra könnunarprófa í grunnskólum og harmar þau vandamál sem komu upp við fyrirlögn þeirra. Eru nemendur og starfsfólk skóla beðið afsökunar á þeim óþægindum sem þetta hefur valdið. Stofnunin er nú að greina stöðuna með þjónustuaðila prófakerfisins og vinna að viðeigandi úrlausn. Þar sem ekki hefur fengist fullnægjandi lausn á þeim vanda sem upp kom í morgun var nauðsynlegt að endurskoða fyrirlögn prófanna,“ segir í yfirlýsingu frá Menntamálastofnun. Að höfðu samráði við mennta- og menningarmálaráðuneyti hefur verið ákveðið að fresta samræmdum könnunarprófum í stærðfræði og ensku sem fara átti fram í þessari viku. Skólum er gefinn kostur á að leggja öll þrjú samræmdu könnunarprófin fyrir á tveggja vikna tímabili frá og með næsta mánudegi. Þannig hafi skólar val um hvaða próf þeir leggja fyrir og hvenær á tímabilinu 15.-26. mars. Allir nemendur innan sama skóla verða að taka sama próf á sama degi. „Við þessar krefjandi aðstæður hefur ekki verið svigrúm til að eiga samráð og samtal við foreldra, nemendur og skólasamfélagið en stefnt er að því næstu daga,“ segir í tilkynningunni frá Menntamálastofnun.

Líkar þetta

Fleiri fréttir