„Allt fullt hér,“ eru þeir félagar Helgi Már Bjarnason margfaldur Íslandsmeistari í júdó og Pétur yngri að segja. Að sögn Péturs á Helgi nú auðvelt með að rífa þorskana úr netunum á ippon. Ljósm. af

Góð aflabrögð á Breiðafirði

Skipverjar á netabátnum Bárði SH hafa mokfiskað að undanförnu, með um eða yfir 63 tonn í róðri og það aðeins í 65 net. „Við höfum haldið okkur rétt fyrir utan Rif,“ sagði Höskuldur Árnason skipsverji á Bárði SH þegar fréttaritari Skessuhorns heyrði í honum hljóðið síðastliðinn laugardag.

Að sögn Hafrúnar Ævarsdóttur hafnarvarðar hefur verið ágæt veiði í dragnót að undanförnu þótt aðeins hafi dregið úr afla bátanna síðustu daga. Sama má segja um línubáta, en þeir hafa fegið góðan afla þegar veður hefur leyft sjósókn. Hinsvegar dró úr veiði þeirra á sunnudaginn vegna þess hve mikið af loðnu er komin á svæðið. Þorskurinn er nú fullur af loðnu.

Andri Steinn Benediktsson, framkvæmdastjóri Fiskmarkaðar Snæfellsbæjar, segir að fiskverð hafi svona nokkuð veginn verið í jafnvægi að undanförnu, en það komu þó dagar sem verðið hefur fallið aðeins en svo tekið kipp aftur uppá við. Verðið hefur rokkað frá 260 og upp í 360 krónur fyrir kílóið af stórum þorski.

Líkar þetta

Fleiri fréttir