Vararafstöð komin í gang á föstudaginn við húsnæði Þorbjarnar í Grindavík. Ljósm. Landsbjörg.

Vararafstöðvar sanna rækilega gildi sitt

Nýverið greindum við frá því í frétt hér í Skessuhorni að ríkið afhenti Landsbjörgu nokkrar vararafstöðvar sem verða til taks í öllum landshlutum til að bregðast við aðstæðum, svo sem rafmagnsleysi. Slíkum stöðvum hefur nú verið komið til geymslu og notkunar, ef með þarf, í Ólafsvík, Borgarnesi og á Akranesi. Síðastliðinn föstudag varð rafmagnslaust í Grindavík í sjö klukkustundir á sama tíma og jörð skalf þar nær linnulaust. Mikinn óhug setti að íbúum vegna ástandsins. Vararafstöð sem björgunarsveitin Þorbjörn hýsir kom þá að góðum notum og sýnir mikilvægi þess að slíkur öryggisbúnaður sé til staðar. Stöðin var ræst og straumurinn notaður til að koma varafli á mikilvæga staði í samfélaginu. Í húsnæði björgunarsveitarinnar, sem hýsir meðal annars vettvangsstjórn og fulltrúa almannavarnardeildarinnar á svæðinu, var vararafstöðinni komið fyrir. Þá var sjúkrabíllinn í bæjarfélaginu sömuleiðis færður þangað.

„Mikið átak hefur verið unnið í að efla varaafl á landinu eftir atburði undanfarinna 14 mánaða og hefur sérstök áhersla verið lögð á að tryggja varaafl fyrir fjarskipainnviði. Því eru björgunarsveitir búnar að undirbúa þau verkefni vel og æfa reglulega. Skamma stund tók að koma varafli á húsið og síðar var farið að vinna í því að tryggja varaafl fyrir mikilvæga fjarskiptainnviði á svæðinu í samstarfi við Neyðarlínuna,“ sagði í tilkynningu frá samskiptastjóra Landsbjargar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir