Dagbjartur Arilíusson rekur Brugghúsið Steðja á samnefndum bæ í Borgarfirði. Ljósm. úr safni/mm.

Ríkið er ríki í ríkinu og án stjórnar

Um fjörutíu umsagnir bárust við frumvarp dómsmálaráðherra um lítil handverksbrugghús meðan það var til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda. Efnislega snýst frumvarpið um að handsverksbrugghús fái undanþágu frá einkarétti ÁTVR og leyfist að selja bjór út úr húsi á framleiðslustað. Umsagnir eru nánast eins mismunandi og þær eru margar. Allt frá einarðri andstöðu og vísað til áfengisvarna og til þess að frumvarpið gangi of skammt.

Forsvarsmenn handverksbrugghúsanna taka frumvarpinu flestir fagnandi og telja að það muni styrkja rekstrargrundvöll þeirra, sérstaklega þar sem gert er út á skoðunarferðir ferðamanna í brugghús. Meðal umsagnaraðila eru Dagbjartur Arilíusson og Svanhildur Valdimarsdóttir sem reka Brugghús Steðja í Borgarfirði. Þau segjast fagna því að hreyfing sé komin á breytingu á regluverki áfengislöggjafarinnar. Um sé að ræða ágæta byrjun og muni, ef verður að lögum, rétta aðeins hlut smærri brugghúsa. „Það er hins vegar hræsni að ganga ekki lengra og laga regluverkið þannig að brugghúsum hér á landi sé gert hærra undir höfði,“ skrifa þau. „Íslensk brugghús skapa störf og verðmæti fyrir þjóðarbúið. Ferðamenn vilja njóta afurða hvers héraðs og lands og brugghúsin eru mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn.“

Benda þau Dagbjartur og Svanhildur á að íslensk brugghús sitji ekki einu sinni við sama borð og brugghús erlendis, sem geta í skjóli EES reglna selt til íslenskra neytendi í gegnum netið. „Ef rökin eru lýðheilsusjónarmið þá finnst okkur það skjóta skökku við að segja að útlenskar afurðir séu betri kostur en innlendar. Við rekum varla samfélag á þessum grunni. Þetta kallast mismunun! En ef þetta er vilji ráðamanna þjóðarinnar, þá væri réttara að banna alfarið framleiðslu áfengis á Íslandi og erlenda netsölu, en að vera með þetta hálfkák.“

Að endingu benda þau á rekstrarform ríkisins á ríkiseinkasölunni; „En það er ekki aðeins með vefsölunni að brotið er á rétti okkar heldur hefur ÁTVR fullt vald á að haga hlutum eins og þeim þóknast. ÁTVR er ríki innan ríkisins. Það er ekki einu sinni stjórn yfir þessari stofnun. Heldur forstjóri yfir aðstoðarforstjóra yfir aðstoðar-aðstoðarforstjóra o.s.fv. Þessu er öllu saman stjórnað eftir peningaflæði og geðþótta. Ríkisstofnum á borð við ÁTVR ætti með öllum ráðum að hygla íslenskri framleiðslu, með því til dæmis að hafa íslenska framleiðslu í öllum vínbúðum landsins. Þar sem allir íslenskir framleiðendur sitja við sama borð, sama hversu litlir þeir eru. Þetta er réttlætismál í hnotskurn og sé einhver vilji til að koma til móts við íslenska framleiðendur og neytendur, þá þarf að sýna það í verki,“ skrifa eigendur Brugghúss Steðja í Borgarfirði í umsögn sinni við frumvarpið.

Líkar þetta

Fleiri fréttir