Rýma þarf hluta Grundaskóla vegna leka og slæmra loftgæða

Athugun verkfræðistofunnar Verkís á húsnæði Grundaskóla á Akranesi, sem gerð var vegna heilsufarseinkenna sem vart hefur orðið hjá nokkrum nemendum og starfsfólki skólans, hefur leitt í ljós að ráðast þarf í umfangsmiklar viðgerðir á húsinu. Þegar frumniðurstöður lágu fyrir í liðinni viku var strax tekin ákvörðun um að rýma hluta hússins þar sem loftgæðum er ábótavant og rakaskemmdir hafa greinst. Verkís var falið að gera ítarlega úttekt á öllu húsnæðinu og nú liggja fyrir megin niðurstöður, en lokaskýrslu um ástand þess er að vænta í næstu viku. Verður skýrslan, að sögn Sigurðar Arnar Sigurðssonar skólastjóra, kynnt í heild sinni fyrir foreldrum og starfsfólki þegar hún berst. Sigurður Arnar segir að meginástæða slæmra loftgæða megi rekja til rykagna frá glerull vegna ófullnægjandi frágangs rakavarnarlags í lofti og veggjum. Einnig segir hann hluta vandans vera vegna rakaskemmda, en það muni þó ekki koma í ljós fyrr en lokaskýrsla Verkís berst hvort heilsuspillandi mygla sé í húsnæðinu.

Tvær álmur skólans rýmdar

Sigurður Arnar skólastjóri segir að þak á C álmu skólans leki, en þar hefur yngsta stig verið til húsa. Þar hafa mælst agnir úr glerull sem notuð var til einangrunar lofts og veggja fyrir um fjörutíu árum þegar húsið var byggt. Sömuleiðis þurfi nú að gera lagfæringar á B álmu skólans, þar sem unglingadeild hefur verið til húsa. Þær viðgerðir munu þó taka skemmri tíma en viðgerð á C álmunni enda ekki eins umfangsmiklar. Sigurður kveðst ekki eiga von á því að hægt verði að nota C álmu skólans meira á þessu skólaári og jafnvel að viðgerð ljúki ekki fyrr en á næsta ári þar sem ráðast þarf í umfangsmiklar endurbætur og viðgerðir á húsinu.

Aðgerðaáætlun virkjuð

Ljóst er að þessar skemmdir á skólahúsinu munu hafa í för með sér töluverða röskun á skólastarfi og var að sögn Sigurðar Arnar strax í vikunni sem leið ákveðið að ráðast í breytingar sem felast í að nemendum verður kennt út um allan bæ, eins og hann orðar það, enda var strax tekin ákvörðun um að rýma það húsnæði sem athugun Verkís leiddi í ljós að væri heilsuspillandi. Ítarleg aðgerðaráætlun hefur nú verið virkjuð í samvinnu stjórnenda og starfsfólks og kynnt foreldrum, en markmiðið í þeirri vinnu var að taka nemendur og starfsfólk úr öllum þeim rýmum skólans þar sem talið er að loftgæði séu ófullnægjandi. Starfsfólki skólans hefur nú á stuttum tíma tekist að gera áætlanir til að halda megi úti skólastarfi við mjög breyttar aðstæður á næstu vikum og misserum.

Í athugun að endurbyggja hluta

„Megin vandamálið í húsnæði yngsta stigs eru glerullaragnir sem erta börn og fullorðna. Einnig þarf að fjarlægja klósettsvæðið að stórum hluta og lagfæra þakklæðningu. Við erum að tala um að húsnæði yngsta stigsins verður í fyrsta lagi klárt í september næstkomandi. Þá er í skoðun hvort hreinlega eigi að endurhanna allt svæðið og byggja nýtt kennslusvæði sem tæki mið af kröfum til framtíðar,“ skrifaði Sigurður Arnar í bréfi til starfsmanna.

Nemendur í nýju umhverfi

Til að bregðast við því að hluti skólahússins hverfur nú úr notkun hefur það verið kynnt að yngsta stig skólans verði flutt í húsnæði miðstigs og þannig verður fyrirkomulagið út þetta skólaár. 5. bekkur hefur tímabundið fengið aðstöðu í Þorpinu/Arnardal, en gert ráð fyrri endurkomu bekksins í Grundaskóla eftir rúma viku en þá fer árgangurinn í húsnæði unglingastigsins. Mest röskun til lengri tíma verður því hjá unglingastigi skólans. 6. bekkur fer tímabundið í kennslu í Frístundamiðstöðinni við Garðavöll. Sama plan er varðandi þann árgang og þann fimmta. Stutt fjarvera eða u.þ.b. vika. 7. bekkur fer tímabundið í fjarnám og rúlluinnköllunarkerfi í Íþróttamiðstöðinni á Jaðarsbökkum. Hann kemur aftur heim á sama tíma og fimmti og sjötti bekkur og fer í húsnæði unglingadeildar.  8. bekkur fer tímabundið í fjarnám og rúlluinnköllunarkerfi í Tónlistarskólanum. Líklega verður það fyrirkomulag til vors. 9. bekkur er nú í samræmdum prófum mánudag til miðvikudags í þessari viku. Líklega verðum árganginum svo kennt í fjarnámi og rúlluinnköllunarkerfi í í lok vikunnar eða þar til Frístundamiðstöðin á Garðavöllum losnar og sjötti bekkur kemur heim. Hugmyndin er að níundi bekkur verði í frístundamiðstöðinni fram í lok apríl en þá flytur hann yfir í húsnæði Fjölbrautaskóla Vesturlands og sameinast þar tíunda bekk. 10. bekkur flytur í glæsilega aðstöðu í Fjölbrautaskóla Vesturlands við Vallholt strax á mánudag og verður þar út skólaárið.

Viðgerðir hefjast strax

Á morgun, mánudag, munu iðnaðarmenn hefjast handa við að lagfæra afmörkuð svæði í B-álmu skólans (rými unglingadeildar). Jafnframt verður unnið að áætlun um verulegar endurbætur á C-álmu (rými 1. – 3. bekkjar) en þær aðgerðir eru eins og fyrr segir mun viðameiri og taka lengri tíma en aðgerðir í B álmu.

„Það er von okkar allra að með góðri samvinnu skólasamfélagsins og foreldra takist að halda skólastarfi nemenda Grundaskóla í sem mestum gæðum við þessar krefjandi aðstæður sem komnar eru upp,“ segir Sigurður Arnar Sigurðsson í samtali við Skessuhorn.

Líkar þetta

Fleiri fréttir