Ákvörðun ríkis ef breyta á alþjónustu og hætta að bera út bréf

„Íslandspóstur er ekki að íhuga að hætta að bera út bréfapóst enda getur félagið ekki tekið einhliða ákvörðun um slíkt eða um aðra þætti sem snúa að alþjónustuskyldu,“ segir í tilkynningu frá fyrirtækinu sem send var út í gær. Vísað er til viðtals við forstjórann sem birtist í Morgunblaðinu á laugardaginn þar sem Þórhildur Ólöf Helgadóttir velti fyrir sér leiðum sem ríkið gæti farið til að lækka kostnaðargrundvöll á alþjónustu, hvort sem um ræðir rafræna afhendingu bréfa, póstkassavörður eða aðrar útfærslur. „Það er ljóst að til framtíðar verður að skoða þjónustustig og útfærslu bréfadreifingar enda mun fækkun bréfa óhjákvæmilega leiða til meiri kostnaðar. Íslandspóstur ítrekar hins vegar að allar ákvarðanir er varða alþjónustu eru teknar af stjórnvöldum en Íslandspóstur vinnur eftir settum lögum og reglum hverju sinni,“ sagði í tilkynningu frá Íslandspósti í kjölfar viðtalsins.

Ummæli forstjórans féllu víða í grýttan jarðveg í umræðum á samfélagsmiðlum í gær og því sá fyrirtækið ástæðu til að árétta að ef ganga eigi lengra í hagræðingu þurfi að breyta þjónustuskyldu Íslandspósts. Það sé einvörðungu stjórnvalda að taka slíka ákvörðun enda er Íslandspóstur ohf, þ.e. hlutafélag alfarið í eigu ríkisins og starfar samkvæmt lögum sem því eru sett.

Líkar þetta

Fleiri fréttir