Unnið að hreinsun á fjölbýlishúsinu við Akratorg. Ljósm. úr safni/ hs.

Tilkynnt um tjón á 300 bílum og húsum

Íbúar í nágrenni sementssílóanna við Akraneshöfn hafa á samfélagsmiðlum lýst yfir áhyggjum af áhrifum sementslosunar yfir byggðina sem varð aðfararnótt 5. janúar síðastliðins. Áhyggjur þeirra snúa einkum að ástandi fasteigna þeirra, bíla, áhrifa á lífríkið og ekki síst á heilsu fólks í ljósi þess hve smákornótt sement fauk út í umhverfið. Í kjölfar óhappsins fékk Sementsverksmiðjan ehf. verkfræðistofuna Eflu til að meta raunveruleg áhrif óhappsins á umhverfi og loftgæði. Niðurstaða úr þeirri könnun liggur ekki fyrir. Verksmiðjan er tryggð fyrir óhöppum sem þessum og hafði tryggingafélagið VÍS milligöngu um hreinsun áhrifasvæðisins, samskipti við tjónþola og greiðslu bóta til þeirra. Ráðist hefur verið í umfangsmikla hreinsun húsa og bíla en ljóst er að talvert hreinsunarstarf er enn eftir.

300 bílar og hús

Skessuhorn leitaði til tryggingafélagsins VÍS til að forvitnast um stöðu mála gagnvart tjónabótum til íbúa og fyrir svörum var Erla Tryggvadóttir samskiptastjóri fyrirtækisins. Hún var fyrst spurð um umfang tjónsins; hversu margir fasteigna- og bílaeigendur hafa tilkynnt tjón til VÍS fram til þessa? „Okkur bárust tilkynningar um sementsfok á 220 bíla. Vel hefur gengið að þrífa bílana og er þeirri vinnu lokið að mestu leyti. Okkur bárust jafnframt um 80 tilkynningar um sementsfok á fasteignir. Vel hefur gengið að þrífa fasteignir. Við höfum boðið húseigendum sem við höfum ekki náð að þrífa hjá, bætur fyrir hreinsun. En þess ber að geta að við erum enn að hafa samband við þá sem tilkynntu tjón til okkar vegna sementsryks,“ segir Erla. Hún segir að fyrst eftir óhappið hafi verið farið í yfirgripsmiklar hreinsunaraðgerðir, en þeim hafi um tíma verið hætt vegna frosts. „Hreinsun á bílum gekk vel en verið er að skoða nokkur tilvik sérstaklega. Við vitum um tjón á einstaka húsum vegna sementsfoksins. Ef talið er að það sé frekara tjón á fasteign vegna sementsfoksins, þá þarf að meta það sérstaklega. Markmið okkar var að lágmarka frekara tjón,“ segir Erla.

Þakklát frumkvæði heimafólks

„Við erum því þakklát fyrir samvinnu og hjálpsemi allra þeirra Skagamanna sem komu að málinu. Við viljum sérstaklega þakka slökkviliðinu á staðnum fyrir ómetanlegt framlag. Við erum þess fullviss að okkur hafi tekist að koma í veg fyrir frekara tjón með samstilltu átaki. Við erum einnig þakklát fyrir frumkvæði þeirra Skagamanna sem riðu á vaðið og þrifu fasteignir sínar. Með því komu þeir í veg fyrir enn meira tjón en orðið hefði. Við hvetjum því auðvitað alla til að þrífa til þess að lágmarka tjón.“ Erla segir að VÍS hafi sett sig í samband við alla sem tilkynntu tjón til félagsins. „Við höfum þó ekki náð í alla. Við hvetjum því þá, sem við höfum ekki náð í, að hafa samband við okkur í síma 560-5000 eða senda tölvupóst á vis@vis.is.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir