Persónur og leikendur í Lazy Town.

Stefnt að upplifunargarði í anda Latabæjar í Borgarnesi

Á sýningu Fornbílafjelags Borgarfjarðar og Raftanna í Brákarey fór ekki á milli mála hversu gríðarlegur áhugi er fyrir öllu sem tengist Latabæ.

Á fundi byggðarráðs Borgarbyggðar í gær var tekin fyrir umsókn Upplifunargarðs Borgarnesi ehf. um allt að 2000 fermetra lóð í Borgarnesi fyrir starfsemi sem byggð verður á hugmyndafræði Latabæjar, eða Lazy Town. Byggðarráð tók jákvætt í erindið og bókaði að um mjög áhugavert verkefni væri að ræða og lofaði stuðningi við framgang þess. Byggðarráð fól sveitarstjóra að vinna með forsvarsmönnum verkefnisins að því að finna hentuga lóð.

Í bréfi sem Helga Halldórsdóttir ritar, fyrir hönd Upplifunargarðs Borgarnesi ehf., kemur fram að til standi að byggja hús fyrir safn, stúdíó og veitingastað. Lóðin þyrfti að geta rúmað tvö þúsund fermetra hús auk útiaðstöðu og auk þess með stækkunarmöguleika. „Aðstandendur verkefnisins telja að slík uppbygging, sem byggist á hugmyndafræði Lazy Town og sett yrði upp í Borgarnesi, myndi efla afþreytingarmöguleika í héraði, styrkja ásýnd bæjarins og samfélagsins í heild og skapa fjölda nýrra starfa.“

Helga getur þess í erindi sínu að undanfarin þrjú ár hafi hún ásamt Magnúsi Scheving skapara Lazy Town og fleirum, unnið að undirbúningi þessa verkefnis í Borgarnesi. „Nú eru taldar miklar líkur að að það verði að veruleika og þannig takist að byggja upp á næstu árum, skerkt fyrirtæki sem skapi fjölmörg störf og á sér enga hliðstæðu á Íslandi.“

Heimsbyggðin þekkir þættina

Borgnesingurinn Magnús Scheving.

Magnús Scheving frumkvöðull og höfundur bókanna og heimsfrægra sjónvarpsþátta um Latabæ færði árið 2016 sínum gamla heimabæ Borgarnesi, til geymslu, bíla- og búnaðarsafn Latabæjar. Upptökum á þáttunum hafði þá verið hætt hér á landi. Hluti þessara þekktu safngripa var svo settur upp í húsnæði Fornbílafjelags Borgarfjarðar í Brákarey í tengslum við stórsýningu félagsins og Raftanna. Bílar, búnaður og leikbrúður hinna ýmsu persóna úr þáttunum um Latabæ eru mörgum í fersku minni. En áhugi fyrir því sem tengist Latabæ nær langt út fyrir landsteinana, enda voru þættirnir um Lazy Town sýndir í fjölmörgum löndum við miklar vinsældir. Í þáttunum; tækjum og búnaði en ekki síst boðskapnum sem Íþróttaálfurinn, Glanni glæpur, Solla stirða og aðrar persónur komu á framfæri, felast mikil tækifæri. Þau tækifæri vilja heimamenn í Borgarensi grípa og hófu því fyrir þremur árum, í samráði við Magnús Scheving, undirbúning að stofnun Latabæjarsafns, eða upplifunargarðs, í Borgarnesi. Verkefnið er samkvæmt erindi Helgu Halldórsdóttur nú komið á góðan rekspöl. Þess má geta að Uppbyggingarstjóður Vesturlands hefur stutt við undirbúning verkefnisins.

Líkar þetta

Fleiri fréttir