Mjólkursamsalan greiðir tæpan hálfan milljarð króna í sekt

Hæstirétturéttur hefur kveðið upp dóm þess efnis að Mjólkursamsalan hafi gróflega brotið samkeppnislög með því að mismuna keppinautum sínum á markaði. Samstarfsaðilum MS var seld hrámjólk á mun lægra verði en keppinautunum. Það voru forsvarsmenn Mjólku sem höfðuðu málið fyrir níu árum, eða árið 2012. Með dómi Hæstaréttar er MS nú gert að greiða 480 milljónir króna samanlagt í stjórnvaldssekt og fyrir brot á lögum um upplýsingaskyldu. Hæstiréttur taldi ekki vafa undirorpið að MS hafi með vísvitandi hætti veikt samkeppnisstöðu keppinauta sinna og brotið með því alvarlega gegn samkeppnislögum. Mjólkursamsalan greiddi sektina árið 2018 eftir að niðurstaða úr dómi héraðsdóms lá fyrir.

Í tilkynningu frá Mjólkursamsölunni í kjölfar þessarar niðurstöðu kemur fram að með dómi Hæstaréttar sé leiddur til lykta ágreiningur um túlkun á samspili ákvæða búvörulaga og samkeppnislaga, sem hefur verið til meðferðar fyrir stjórnvöldum og dómstólum í tæpan áratug. „Þar hefur legið fyrir allan tímann að Mjólkursamsalan var í góðri trú og taldi sig vera að vinna í samræmi við lög. Það er líka ljóst að Mjólkursamsalan átti von á því að Hæstiréttur myndi staðfesta niðurstöðu Áfrýjunarnefndar samkeppnismála, sem hafði úrskurðað að starfshættir Mjólkursamsölunnar væru málefnalegir og samkvæmt lögum. Fyrirtækið mun fara nánar yfir röksemdir Hæstaréttar fyrir niðurstöðunni áður en það tjáir sig frekar efnislega um dóminn,“ segir í tilkynningu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir