Íslandspóstur gerður upp með hagnaði

Aðalfundur opinbera hlutafélagsins Íslandspósts var haldinn í dag. Hagnaður ársins nam 104 milljónum króna en til samanburðar var tap ársins 2019 511 milljónir króna. „Árangur sem þessi er alls ekki sjálfgefinn, endurskipulagning og niðurgreiðsla langtímalána hefur létt umtalsvert á félaginu og okkur tókst með samstilltu átaki stjórnar og starfsfólks að bregðast við tekjuminnkun vegna minni inn- og útflutnings. Íslandspóstur er á réttri leið,“ sagði Þórhildur Ólöf Helgadóttir, forstjóri Íslandspósts, af þessu tilefni.

„Pökkum heldur áfram að fjölga í kerfi Íslandspósts og búist er við að sú þróun haldi áfram á komandi árum. Þrátt fyrir þann góða árangur sem hefur náðst er félagið ekki komið á lygnan sjó. Um leið og endurskoða þarf ákvæðið um að eitt verð gildi á öllu landinu þarf að huga að því hvaða þjónustustig gildi til framtíðar. Bréfasendingum hefur fækkað um tæp 80% frá aldamótum og þeim á eftir að fækka enn frekar á komandi árum. Þetta mun hafa mikil áhrif á rekstur félagsins. Það gerir verkefnið því snúnara, að á sama tíma og bréfunum fækkar, fjölgar bréfalúgunum. Kostnaður við dreifingarnetið eykst en kröfur um góða þjónustu vaxa. Umhverfi Íslandspósts er því síbreytilegt. Meiri áhersla er nú á stafrænar lausnir, sjálfsafgreiðslu, hraða og nálægð en Íslandspóstur og starfsmenn félagsins leggja mikla áherslu á að mæta þessum nútímakröfum,“ segir Þórhildur Ólöf.

Líkar þetta

Fleiri fréttir