Lífhvolfssvæði á Snæfellsnesi – hvað er það?

Um miðja síðustu viku var undirritað samkomulag um að skoða hvort og hver gæti verið ávinningur af því að Snæfellsnes yrði „Man and Biosphere” svæði. Um er að ræða áætlun á vegum UNESCO en „Man and Biosphere“ er meðal mjög þekktra „vörumerkja“ sem standa fyrir einstæða náttúru og menningu svæða. Fimmtíu ára reynsla liggur fyrir af jákvæðri þróun á MaB svæðum. Alls eru 714 MaB-svæði í 129 löndum, þar af liggja 21 svæði í fleiri en einu landi. Ekkert svæði hérlendis hefur enn verið tilnefnt sem Man and Biosphere svæði til Unesco, en nú fer af stað vinna við að kanna hvort slíkt sé fýsilegt fyrir samfélögin á Snæfellsnesi.

Sveitarfélögin á Snæfellsnesi hafa lengi lagt ríka áherslu á samstarf og sjálfbæra þróun á mörgum sviðum samfélagsins. Svæðisgarðurinn Snæfellsnes var stofnaður af sveitarfélögunum fimm, frjálsum félagasamtökum og hagsmunaaðilum í atvinnulífi árið 2014. Svæðisgarðurinn er farvegur fyrir samstarf um uppbyggingu byggðar og atvinnu, á grunni nýsköpunar og sjálfbærrar nýtingar auðlinda, en stefna um það er sett fram í Svæðisskipulagi Snæfellsness 2014-2026. Snæfellsnes hefur hlotið umhverfisvottun EarthCheck fyrir samfélög og starfað samkvæmt því í rúman áratug.

MaB hefur að markmiði að þróa og styrkja hvorutveggja í senn, lífsskilyrði fólks á afmörkuðu svæði og náttúrulegt umhverfi þess. Lögð er áhersla á nýsköpun; að fara nýstárlegar leiðir til að bæta efnahag fólks á svæðinu, í sátt við samfélag og umhverfi.

Ragnhildur Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Svæðisgarðsins Snæfellsness, segir í samtali við Skessuhorn að þau Biosphere svæði í öðrum löndum, sem Snæfellingar hafi unnið með síðustu árin, hafi tekið sameiginlega ákvörðun um að gera ríkar kröfur um sjálfbæra þróun. „Við teljum að það felist mörg tækifæri í því að komast á lista yfir fyrirmyndarsvæði í heiminum á sviði sjálfbærni, samráðs og þekkingaröflunar. Snæfellingar hafa verið að gera ótalmargt í þessum efnum. Hver vill ekki búa, stunda atvinnurekstur og einfaldlega lifa á slíku svæði? En það er mikilvægt að vanda allan undirbúning og að samfélagið sé samstíga, það er forsenda fyrir því að vel takist til.“

En hvað er lífhvolfssvæði?

„Man and Biosphere“ hefur verið þýtt sem „Maður og lífhvolfið“ eða „Maður og lífheimur,“ en að sögn Ragnhildar eru væntingar um að finna þjált, lýsandi íslenskt orð sem nær yfir hugtakið. Lífhvolfssvæði er landssvæði sem útnefnt er af Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) sem hluti af alþjóðlegu neti slíkra svæða. Það eru ríkisstjórnir hvers lands sem tilnefna svæðin, en ekkert vald er framselt frá þeim ríkjum þar sem svæðin eru staðsett.

Svæði sem falla undir verkefnið þurfa hins vegar að vera svæði með sterk sérkenni og vera alþjóðlega viðurkennd af UNESCO fyrir líffræðilegan fjölbreytileika eða fyrir einstakt umhverfi. Á svæðinu þarf að vera til staðar samstarf hagsmunaaðila í átt að sjálfbærri framtíð, stjórnunaráætlun og stefna svæðisins.

Lífhvolfssvæði spanna í dag yfir 6,8 milljónir ferkílómetra lands í 129 löndum. Það slagar í að vera svipað Ástralíu að stærð. Í dag búa um 257 milljónir manna á slíkum svæðum um heim allan. Að sögn Ragnhildar er ástæða þess að farið er í þessa skoðun sú að „líklegt er talið að það starf sem Snæfellingar hafi þegar lagt í, uppfylli að verulegu leyti þau viðmið sem UNESCO „Man and Biosphere” setur. Snæfellingar hafa sett á laggirnar formlegt samstarf á svæðinu, með Svæðisgarði, sú stefna sem felst í Svæðisskipulaginu nær yfir allt Snæfellsnes og umhverfisstarf svæðisins hefur verið í gangi í vel á annan áratug, með umhverfisvottun. Líklegt er því talið að svæðið og samfélagið uppfylli nú þegar stóran hluta af þeim viðmiðum sem Biosphere-svæði annars staðar þurfa að uppfylla. Ávinningurinn fyrir svæði eru þau „verkfæri“ eða aðferðir, sem felast í víðfeðmu þekkingarneti Biosphere-svæða, skýrri sýn sem dregin er af tækifærum framtíðarinnar og fyrirkomulagi samstarfs á hverju svæði,“ segir Ragnhildur.

Í komandi rýni á að kanna, kortleggja og safna saman upplýsingum og gögnum sem nauðsynleg eru talin til að meta kosti og galla við að tilnefna starfssvæði Svæðisgarðsins Snæfellsness, þau fimm sveitarfélög á Snæfellsnesi sem Svæðisskipulag Snæfellsness nær til, sem Man and Biosphere svæði til UNESCO. Kortleggja á mögulega svæðisskiptingu og afmörkun svæðisins, en á Biosphere svæðum er horft til ólíkrar landnotkunar á svæðum. Í erindi sveitarfélaganna fimm á Snæfellsnesi til umhverfisráðherra voru settar fram viðamiklar spurningar um Man and Biosphere, sem ætlunin er að vinna svör við. Skoðað verður hvað felst í því að verða MaB svæði, hver sé reynsla annarra slíkra svæða; kostir og gallar, hvaða svæði geyma góð fordæmi um jákvæð áhrif MaB á nýsköpun og byggðaþróun, sem eru kjarninn í stefnu svæðisskipulags og viðfangsefni Svæðisgarðs. Ennfremur er spurt hvort aðild að MaB hafi áhrif á tækifæri til nýtingar náttúruauðlinda og hvernig það snerti aðra stjórnsýslu, bæði sveitarfélaga og annarra, t.d. skipulagsmál og leyfisveitingar. Mikilvægt er að skoða hvernig Svæðisskipulag Snæfellsness, sem mótað var í sama anda, nýtist og hvort líklegt sé að því þurfi að breyta.

Verkið í höndum Svæðisgarðsins

Svæðisgarðurinn Snæfellsnes hefur að sögn Ragnhildar umsjón með þessari rýni, heldur utan um framvindu, gögn og veitir upplýsingar um það á vef Svæðisgarðsins. Tekin verður saman greinargerð með niðurstöðunum, sem verða svo grunnur fyrir ákvörðun sveitarfélaganna um framhaldið.

Líkar þetta

Fleiri fréttir