Umfangsmikil kannabisræktun stöðvuð í Borgarfirði

Á þriðjudag í síðustu viku stöðvaði Lögreglan á Vesturlandi umfangsmikla kannabisræktun í Borgarfirði. Að sögn lögreglu var umfang ræktunarinnar talsvert og því um stórfellt brot að ræða. Töluvert magn af plöntum á ýmsum stigum ræktunar fannst; 83 plöntur í svonefndri uppeldisræktun, um 18 cm að stærð fundust auk 22 planta í 70 til 90 cm hæð. Auk þess var búnaður til ræktunarinnar bæði dýr og mjög fullkominn að sögn lögreglu, m.a. öflugur og vandaður ljósabúnaður. Mikið rými hafði verið lagt undir ræktunina og innveggir fjarlægðir.

Lögreglan segir að málið hafi verið unnið í samstarfi með Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Í tengslum við aðra rannsókn bárust upplýsingar um mögulega brotastarfsemi í Borgarfirði. Á grundvelli úrskurðar var síðan ráðist í húsleit sem leiddi hina meintu brotastarfsemi í ljós. Að sögn var talsvert stór hópur lögreglumanna sendur á staðinn en þar voru tveir aðilar handteknir.

Eins og áður sagði fannst mikið af búnaði en einnig fannst þar loftriffill, tveir ólöglegir hnífar og að auki haglaskot án þess að haglabyssa fyndist á svæðinu. Að sögn lögreglu neita þeir sök sem handteknir voru á staðnum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir