Söfnunarátak Rótarýklúbbs Borgarness til kaupa á stafrænum þjálfunarbúnaði

Slökkvilið Borgarbyggðar og Neisti, starfsmannafélag slökkviliðsins, eru að freista þess að festa kaup á stafrænum búnaði til æfinga og þjálfunar slökkviliðsmanna og fengu nýverið styrk frá Uppbyggingasjóði Vesturlands að upphæð ein milljón króna til þessa verkefnis. Búnaðurinn kostar 5,5-6,0 m.kr og er fjármögnun umfram fyrrnefndan styrk enn óljós. Því hefur Rótaryklúbbur Borgarness ákveðið að standa að söfnun til að freista þess að fjármagna búnaðarkaupin.

Þessi stafræni búnaður er mengunarlaus þjálfunarbúnaður fyrir slökkviliðsmenn þar sem hægt er að æfa slökkvistarf hvar og hvenær sem er, við sem raunverulegustu aðstæður sem völ er á. Heiðar Örn Jónsson, varaslökkviliðsstjóri í Borgarbyggð hefur tekin saman lýsingu á eiginleikum þessa þjálfunarbúnaðar:

„Mikil þörf er á þjálfunarbúnaði á Íslandi sem býr til eins raunverulegar aðstæður og hægt er til þess að þjálfa slökkviliðsmenn í að bregðast rétt við, við hvaða aðstæður sem geta mögulega myndast. Hægt er að koma búnaðinum fyrir í skólum, bókasöfnum, kirkjum, bensínstöðvum, elliheimilum og sjúkrahúsum. Hvar sem er og enginn óþrifnaður hlýst af. Búnaðurinn metur hæfni slökkviliðsmannsins og er hægt að benda á og bæta árangur á meðan æfingin fer fram. Búnaðinum fylgir slanga sem er nákvæm líking brunaslöngu með fullum þrýstingi. Vatnsstútur með leiserbúnaði sem virkjast um leið og stúturinn er opnaður. Þetta líkir nákvæmlega eftir því þegar vatn er notað. LED skjáir líkja eftir eldi. Leiser skynjari er á sjánum svo skjárinn slekkur eldinn eftir því hvar slökkviliðsmaðurinn sprautar á hann og hversu mikið magn af „vatni“ er notað.

Hægt er að líkja eftir eldi í föstum efnum, gasi eða olíu í þessum búnaði. Skjáirnir eru léttir og meðfæranlegir og því hægt að búa til fjölbreytta æfingu með mismunandi verkefnum með lítilli fyrirhöfn. Einnig má nota vatn með þrýstingi á skjáina og nemur skjárinn hvernig slökkviliðsmaðurinn notar vatnið og slekkur á skjánum hægt og rólega með árangri slökkviliðsmannsins að leiðarljósi. Ef vatnið eða leiserinn er ekki rétt notaður slökknar ekki á eldinum. Hljóðbox líkir eftir hljóðum í eldi, gasleka, sprengingum, öskrum eða barnsgráti. Slíkt hefur mikil áhrif á þann sem þjálfar og æfir hann í að bregðast rétt við ef um raunverulegar aðstæður væri að ræða.

Allur búnaðurinn er samtengjanlegur og hægt að stjórna úr fjarlægð. Stjórntæki eru bæði með vatns- og rykheldri fjarstýringu og einnig í spjaldtölvu þar sem hægt er að safna upplýsingum um hæfni slökkviliðsmannsins og hægt að auðvelda leiðbeiningar til hvers og eins. Eftir góða þjálfun með þessum búnaði í fjölbreyttu umhverfi væru slökkviliðsmenn í Borgarbyggð með þekkingu og reynslu við þjálfun á heimsmælikvarða.“

Söfnun hafin

Til þess að aðstoða við kaup á búnaði þessum hefur Rótarýklúbbur Borgarness í tilefni Rótarýdagsins ákveðið að standa fyrir fjáröflun meðal fyrirtækja og almennings í Borgarbyggð og nágrenni til þess að gera slökkviliðinu kleyft að koma þessu máli í farsælan farveg.  Þeir sem vilja leggja málefninu lið geta greitt inn á reikning 0354-03-400624 kt. 530586-2009 í Arion banka í Borgarnesi fyrir 15. apríl nk.

Líkar þetta

Fleiri fréttir