Loðnu dælt úr Venusi í morgun. Ljósm. mm.

Fyrsta loðnan á Akranes í þrjú ár

Undir miðnætti í gærkvöldi kom Venus NS-150, eitt af uppsjávarveiðiskipum Brims hf, í Akraneshöfn með fyrsta loðnufarminn sem þangað berst í þrjú ár. Aflinn var 520 tonn sem fékkst út á Breiðafirði. Dæling úr skipinu hófst strax um miðnætti og er nú langt komin. Hrognavinnsla hófst í kjölfarið. Gunnar Hermannsson er sem fyrr vinnslustjóri hjá Brimi. Hann segir í samtali við Skessuhorn að hrognafylling sé ágæt, eða þetta um 26%. Vinnslan fer þannig fram að aflinn er flokkaður, hrygnan skorin og látið síga áður en frysting hefst. Hratið og hængurinn er bræddur í fiskimjölsverksmiðjunni á Akranesi. Til stendur að frysta hluta hrognanna á Akranesi og mun Vignir G Jónsson, dótturfélag Brims, annast frystinguna þar en ekið verður með hluta hrognanna til frystingar í vinnslustöð Brims á Vopnafirði. Gunnar segir að ágætlega hafi gengið að manna störf í loðnuvinnslunni á Akranesi.

Mikill hugur var í mannskap sem blaðamaður hitti á Akraneshöfn í morgun og ekki laust við að örlaði á glampa í augum og að vertíðarstemningar gætti.

Líkar þetta

Fleiri fréttir