Fyrsta stjórn Ferðafélags Borgarfjarðarhéraðs. F.v. Lára Kristín, Sólrún Fjóla, Hrefna Guðrún, Olgeir Helgi, Jón Gísli forseti og Jónína. Ljósm. es.

Fjölmenni við stofnun Ferðafélags Borgarfjarðarhéraðs

Stofnfundur Ferðamálafélags Borgafjarðarhéraðs var haldinn á Hótel B-59 í Borgarnesi í gærkveldi. Fjölmenni mætti á stofnfundinn, eða á annað hundrað manns. Vegna samkomutakmarkana varð því að þrískipta fundarýminu. Fólk sem skráir sig í félagið á þessu ári verður sömuleiðis stofnfélagar, en það er hægt að gera með því að senda tölvupóst á netfangið ffb@ffb.is Allar nánari upplýsingar um félagið verða birtar á nýrri heimasíðu þess sem væntaleg er í loftið. Gísli Einarsson vann að undirbúningi og boðun stofnfundar ásamt vöskum hópi félaga sinna. Hélt hann þrumandi stofnfundarræðu þar sem hann lýsti væntanlegum tilgangi félagsins. Farið var yfir drög að samþykktum fyrir nýtt félag, breytingar gerðar, en að endingu voru þær samþykktar. Loks var kosið í fyrstu stjórn FBB. Gísli Einarsson var kosinn forseti félagsins en með honum í stjórn eru Hrefna Guðrún Sigmarsdóttir varaforseti, Jónína Pálsdóttir fjárhirðir, Olgeir Helgi Ragnarsson ritari og Jón Heiðarsson meðstjórnandi. Í varastjórn eru Lára Kristín Gísladóttir og Sólrún Fjóla Káradóttir.

Ferðafélag Borgarfjarðar hefur fengið aðild að Ferðafélagi Íslands (FÍ) en aðild fylgir ýmis þjónusta, svo sem afslættir og tilboðskjör í verslunum, afslættir í skála félagsins auk árbóka FÍ. Ólafur Örn Haraldsson forseti Ferðafélags Íslands ávarpaði samkomuna sem og Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri. Sögðu þeir frá starfsemi FÍ sem var stofnað árið 1927. Félagsmenn í Ferðafélagi Íslands eru um tíu þúsund talsins, þannig að í gær fjölgaði í aðildarfélögum þess um eitt prósent. Fram kom að eitt fyrsta verkefni nýs félags verður að varða og merkja gönguleið sem nefnist Vatnaleið, sem liggur frá Hlíðarvatni í Hnappadal, um Langadal og að Hreðavatni. Reynir Ingibjartsson göngugarpur og höfundur fjölda gönguleiðabóka ávarpaði fundarmenn og færði hann félaginu að gjöf ýmis gögn sem tengjast gönguleiðinni um Vatnaleið.

F.v. Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri FÍ, Ólafur Örn Haraldsson forseti FÍ, Gísli forseti FBB og Pétur Magnússon gjaldkeri FÍ. Ljósm. mm

Líkar þetta

Fleiri fréttir