Rekinn eftir að hafa brugðið fæti fyrir leikmann annars liðs

Szymon Eugieniusz Nabakowski, þjálfari yngri flokka hjá Skallagrími í körfu, brá fæti fyrir leikmann ÍR þegar liðið heimsótti Borgarnes í síðustu viku. Þetta kemur fram í frétt á Vísi. Atvikaðist þetta þannig að ÍR-ingar áttu góða sókn gegn Skallagrími og skoruðu þriggja stiga körfu. Brást þjálfari Skallagríms þá við með því að bregða fæti fyrir leikmann ÍR sem var að skokka til baka, framhjá varamannabekk gestgjafanna. Leikmaðurinn féll þó ekki við, en dómarinn sá tilburðina og vísaði þjálfaranum samstundis úr húsi.

Szymon hefur tjáð sig um málið á Facebook hópnum Dominos-spjallinu þar sem hann segir dómarann hafa brugðist hárrétt við og sjálfur hafi hann ekki átt skilið að vera á inni á vellinum eftir þetta atvik. Þá segist hann hafa beðið drengina í liði ÍR afsökunar á sinni hegðun eftir leikinn. Hann segist hafa ákveðið strax að segja upp starfi sínu og talaði við Skallagrím daginn eftir, þar sem ákveðið var að hann myndi hætta strax og vinna í sínum málum svo að atvik sem þetta gæti ekki gerst aftur.

Líkar þetta

Fleiri fréttir