VLFA á samningafundum með ELKEM Ísland

Verkalýðsfélag Akraness, VLFA á nú í samningaviðræðum við ELKEM Ísland á Grundartanga um nýjan kjarasamning til handa starfsmönnum fyrirtækisins.

Í samtali við Vihjálm Birgisson, formann VLFA ganga viðræður ágætlega en síðasti fundur aðila var í dag, föstudag. „Þetta þokast en auðvitað tekur þetta alltaf tíma. Við semjum eftir ákveðinni aðferðafræði og krafa starfsmanna er að ekki verði samið undir því sem samið hefur verið í öðrum stóriðjum að undanförnu enda mun slíkt aldrei geta orðið samningsforsenda.“ segir Vilhjálmur.

Það liggur fyrir að allflestar stóriðjur á Íslandi hafa nýverið gengið frá nýjum kjarasamningi og hefur kjarasamningur Norðuráls verið til viðmiðunar hjá þeim stóriðjum sem nýverið hafa gengið frá sínum samningum.

Að sögn Vilhjálms hefur vinnan undanfarið falist í samlestri kjarasamningsins í heild sinni með það fyrir augum að einfalda samninginn og eyða út greinum, bókunum og fylgiskjölum sem ekki eiga við lengur.

Vilhjálmur segir að  ekki hafi verið neinir sérstakir ásteytingarsteinar í viðræðunum en „.. auðvitað er alltaf eitthvað sem menn eru ekki sammála um en menn komast alltaf að niðurstöðu á endanum.“

Aðspurður um tímaplan sagði Vilhjálmur að stefnt sé að því að ljúka samningum eftir að hámarki þrjár vikur.

Líkar þetta

Fleiri fréttir