Innsti hluti Borgarvogs fremst á mynd en fjær er íbúabyggðin við Kvíaholt. Ljósm. mm.

Telur óráðlegt að fela stofnun í Reykjavík yfirráð yfir landi

Guðmundur Ingi Waage í Borgarnesi sendi Borgarbyggð erindi 20. febrúar síðastliðinn. Þar fer hann fram á að íbúakosning yrði framkvæmd til að kanna hug bæjarbúa um fyrirhugaða friðlýsingu Borgarvogs í Borgarnesi. Telur Guðmundur friðun vogsins mjög umdeilanlega og hæpið að fela Umhverfisstofnun yfirráð yfir svæðinu. Þá sér hann ekki ástæðu til að friðlýsa Borgarvog vegna fuglalífs þar sem fuglalíf er nú þegar með miklum blóma og friðlýsing bæti þar engu um. „Þá er líka að Borgarbyggð hefur í hendi sér hvað verður um svæðið i framtíðinni og allt skipulag á því hvort nokkuð verður gert umfram það sem nú er. Við eigum ekki að afhenda stofnun í Reykjavík umráð yfir okkar landi,“ skrifar Guðmundur Ingi Waage.

Á fundi byggðarráðs í síðustu viku var Guðmundi þakkað erindið, en þess jafnframt getið í bókun að ekki væru öll gögn komin fram vegna friðunar, samráðsferli við hagsmunaaðila ekki farið fram og ferlið því skammt á veg komið. „Ferlið gerir ráð fyrir aðkomu hagsmunaaðila og verður kynnt fyrir íbúum sveitarfélagsins á íbúafundi í kynningarferlinu. Af þeim sökum er ekki tímabært að taka afstöðu til beiðni um íbúakosningu, enda liggja ekki fyrir skilmálar friðlýsingar. Byggðarráð bendir þó á að ef 20% þeirra sem eiga kosningarétt í sveitarfélaginu óska eftir almennri atkvæðagreiðslu skal sveitarstjórn verða við þeirri beiðni, skv. 63. gr. samþykkta um stjórn Borgarbyggðar.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir