Mynd tekin af þessu tilefni. F.v. Pétur Ottesen, Janus Bragi Sigurbjörnsson, Katrín Georgsdóttir og Rakel Óskarsdóttir.

Janus Bragi gerður að heiðursfélaga Golfklúbbsins Leynis

Í gær var Janus Braga Sigurbjörnsson gerður að heiðursfélaga Golfkúbbsins Leynis á Akranesi. Þessi höfðingi verður níræður síðar á árinu. Af þessu tilefni heimsóttu Pétur Ottesen formaður Leynis og Rakel Óskarsdóttir framkvæmdastjóri hjónin Janus Braga og eiginkonu hana Katrínu Georgsdóttur, og færðu þeim blóm. Janus Bragi bætist nú í hóp þeirra heiðursfélaga sem bætt hafa klúbbinn með einum eða öðrum hætti í áranna rás með hvatningu og óeigingjörnu starfi.

„Janus Bragi er fæddur 1931 og hefur verið mjög virkur félagsmaður frá árinu 1971 og er sá félagsmaður sem borgað hefur sitt árgjald hvað lengst og ávallt hefur hann gert það með miklu stolti og brosi á vör. Ef farið er á alnetið og slegið inn Janus Bragi Sigurbjörnsson þá koma upp síður og tenglar um kappann og tengjast þær nær undantekningarlaust Golfklúbbnum Leyni. Mikinn fjársjóð mynda má finna inn á Ljósmyndasafni Akranes af Janusi Braga og þeim hjónum á góðum stundum á Garðavelli. Það er alveg ljóst að Golfklúbburinn Leynir hefur átt hug og hjarta Janusar Braga og þeirra hjóna í meira en hálfa öld. Tímarnir og aðstæður á Garðavelli hafa heldur betur breyst á þessum árum en það hefur ekki aftrað Janusi Braga í að mæta á völlinn því aðlögunarhæfni hans er mikil,“ segir í tilkynningu frá Leyni af þessu tilefni.

Í tilefni þessa setti Pétur Ottesen, hinn hagmælti formaður Leynis, saman vísur um þau hjón Janus Braga og Katrínu:

Jákvæðan þú Janus Braga

jafnan hittir fyrir.

Allt hans líf og alla daga

einlægt brosið lifir.

________

Án konu við þó komumst fátt

þar Kata reyndist besta.

Haldreipi sem hefur átt

það hér í skrár má festa.

Stjórn Golfklúbbsins Leynis á áttunda áratugnum (nákvæmt ártal vantar). Aftari röð frá vinstri: Janus Bragi Sigurbjörnsson og Gunnar Sveinn Júlíusson. Fremri röð frá vinstri: Hannes Þorsteinsson, Þorsteinn Þorvaldsson og Einar Jónsson. Ljósm. Ljósmyndasafn Akraness.

Líkar þetta

Fleiri fréttir