Líðan og árangur framhaldsskólanema á tímum kóvid

Niðurstöður könnunar á líðan, námi og aðstæðum framhaldsskólanema sem lögð var fyrir fyrr í vetur bendir til þess að meirihluti nemenda sé ánægður með viðbrögð framhaldsskólanna við Covid-19 og upplifi sig örugg í skólanum. Um 61% nemenda tilgreindu að faraldurinn og sóttvarnareglur hefðu haft slæm áhrif á félagslíf og talið er að 4% nemenda eigi í verulegum erfiðleikum vegna þunglyndis. Unnið er að því að efla stuðning við nemendur, m.a. með því að bæta aðgengi framhaldsskólanema að geðheilbrigðisþjónustu, segir í tilkynningu frá menntamálaráðuneytinu.

Könnunin var unnin af Sambandi íslenskra framhaldsskólanema (SÍF) í samvinnu við mennta-og menningarmálaráðuneytið. Hún var lögð fyrir í nóvember 2020 en á þeim tíma voru flestir framhaldsskólanemar í fjarnámi og höfðu verið í nokkrar vikur. Könnunin var send til 2.500 nemenda, slembiúrtaks úr nemendaskrám framhaldsskólanna á aldrinum 16-30 ára. Alls svöruðu 1539 spurningalistanum í könnuninni og var því svarhlutfall rúm 62%.

Helstu niðurstöður könnunarinnar:

  • 52% nemenda svöruðu að þeir eða einhver nákominn þeim væri í áhættuhópi vegna Covid-19. Af þeim sögðust 57% vera sammála því að skólinn þeirra sýndu því skilning og kæmi til móts við þarfir þeirra. 14% kváðust ósammála þeirri fullyrðingu.
  • 8% nemenda töldu sig vera í áhættuhópi vegna Covid-19 á meðan 47% nemenda sögðu að einhver nákominn sem þeir umgangast reglulega væri í áhættuhópi. Þeir nemendur eru líklegri til þess að upplifa verri andlega heilsu en aðrir.
  • 61% nemenda tilgreindu að faraldurinn og sóttvarnareglur hefðu haft slæm áhrif á félagslíf sitt á meðan 5% töldu það ekki.
  • Rúmur helmingur nemenda tilgreindi að þeim gengi betur í staðnámi en fjarnámi. Tæpur fjórðungur sagðist ganga betur í fjarnámi. Fjórðungur nemenda sagði að þeim gengi jafn vel í fjarnámi og staðnámi. Tæpur helmingur (47%) nemenda tilgreindi að þau myndu vilja fá að velja sjálf á milli staðnáms og fjarnáms á meðan 16% voru því ósammála.
  • 22% nemenda sögðu að þeim liði vel í fjarnámi, en 40% nemenda að þeim liði illa. Alls 37% nemenda tilgreindu að fjarnám hefði ekki áhrif á þeirra líðan. Algengara er að stúlkum líði vel í fjarnámi (26% stúlkna svaraði því til en 19% stráka).
  • 77% svarenda sögðu að tækjabúnaður sem notaður er til fjarkennslu virki vel. Tæp 60% nemenda sögðu að kennsluaðferðir kennara hefðu gengið vel, en 14% að aðferðir þeirra hefðu gengið illa.
  • Um 87% nemenda tilgreindu að þeir hefðu viljað að námsmat á haustönn væri alfarið með símati (43%) eða með símati og heimaprófi (44%).
  • Um 70% nemenda kváðust ánægð með viðbrögð síns skóla vegna Covdi-19, og 64% nemenda telja sig örugg í skólanum m.t.t. sóttvarna. Alls 11% kváðust því ósammála að þau væru örugg í skólanum m.t.t. sóttvarna. Þrír af hverjum fjórum svarendum tilgreindu að þeim þættu sóttvarnir í skólanum nægilega tryggðar.
  • 42% nemenda kváðust hafa upplifað fjárhagserfiðleika í faraldrinum. Í hópi þeirra sem búa í leiguhúsnæði sögðust 70% hafa upplifað fjárhagserfiðleika og 63% þeirra sem taka þátt í rekstri heimilisins.
  • Talið er að 4% svarenda eigi í verulegum erfiðleikum vegna þunglyndis, um 2% karlkynsnemenda svöruðu á þann veg en 6% kvenkyns nemenda.
Líkar þetta

Fleiri fréttir