Björg Ágústsdóttir, formaður stjórnar Svæðisgarðsins á Snæfellsnesi, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra við undirritun samkomulagsins. Ljósm. frg.

Kanna möguleika á að Svæðisgarðurinn verði lífhvolfssvæði

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra Björg Ágústsdóttir formaður stjórnar Svæðisgarðsins á Snæfellsnesi undirrituðu í gær samkomulag í gestastofu Snæfellsness á Breiðabliki um forathugun þess að landssvæði svæðisgarðsins verði í framtíðinni tilnefnt til UNESCO sem svonefnt Maður og lífhvolfssvæði (e. Man and Biosphere). Verkefni þetta hefur verið í undirbúningi undanfarið ár og er ráðgert að því ljúki í vor. Við undirritun samkomulagsins kom fram að verkefnið feli í sér að kanna, kortleggja og safna saman upplýsingum og gögnum sem nauðsynleg eru talin til þess að meta kosti og galla við að tilnefna landssvæði Svæðisgarðsins til verkefnisins, m.a. kortlagningu mögulegrar svæðisskiptingar og afmörkun svæðisins. Svæðisgarðurinn tekur til fimm sveitarfélaga á Snæfellsnesi sem svæðisskipulag Snæfellsness nær til og tekur eingöngu til landsins, en ekki hafsvæðisins þar fyrir utan.

Ennfremur segir að í kjölfar forathugunar skapist færi á að skoða og meta, í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðuneytið sem fer með málefni UNESCO hér á landi, hvort farið verði í að tilnefna svæðið til UNESCO sem Maður og lífhvolfssvæði.

Við undirritunina sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra: ,,Það er í góðu samræmi við þær áherslur í umhverfismálum sem lagðar hafa verið á Snæfellsnesi um langa hríð að skoða fýsileika þess að taka þátt í þessu spennandi UNESCO-verkefni. Komi til þess þá yrði Svæðisgarðurinn á Snæfellsnesi fyrsta slíka svæðið hérlendis. Með þátttöku í verkefninu geta skapast mikil tækfæri fyrir samfélagið á Snæfellsnesi sem hefur í árhundruð lifað í góðu jafnvægi við náttúruna. Ég hlakka því til að sjá niðurstöður forathugunarinnar á komandi vori,“ sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson.

Stjórn Svæðisgarðsins á Snæfellsnesi ásamt umhverfisráðherra á túninu utan við Breiðablik. Ljósm. frg.

Líkar þetta

Fleiri fréttir