Samfylkingin ákveður framboðslista í NV í lok mars

Samfylkingin í Norðvesturkjördæmi mun halda rafrænt „aukið“ kjördæmisþing undir lok mars þar sem kosið verður um fjögur efstu sætin á framboðslista fyrir alþingiskosningarnar í haust. Stuðst verður við reglur flokksins um paralista við uppröðun í efstu sæti. Nú á Samfylkingin í NV kjördæmi einn þingmann í kjördæminu; Guðjón S Brjánsson sem lýsti því yfir á aðalfundi kjördæmisráðs í september síðastliðnum að hann væri áfram til þjónustu reiðubúinn.

„Frestur til að tilkynna framboð rennur út þriðjudaginn 23. mars kl. 23.00. Þeir sem hafa áhuga á að bjóða sig fram í eitt af fjórum efstu sætunum tilkynni það til kjörstjórnar í netfangið nordvestur@xs.is fyrir þann tíma. Kjörstjórn mun kynna frambjóðendur tveimur sólarhringum fyrir fundinn. Kjördæmisþingið verður haldið rafrænt og rétt til að sitja þingið með atkvæðisrétt eru félagar í Samfylkingunni tilnefndir af sínum aðildarfélögum. Kjörskrá lokar viku fyrir fundinn samkvæmt reglum flokksins þ.e.a.s. 20. mars kl. 10.00,“ segir í tilkynningu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir